143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ein af dapurlegu stundunum í þinginu var þegar hér kom upp tillaga frá sjálfstæðismanni um að við mundum senda rústabjörgunarsveitina eða bjóða hana fram til að fara til Kína vegna þess að þar fórust um 200–300 þúsund manns í jarðskjálfta. Þá var kallað hér ofan af pöllunum: Ætlið þið að fara að hjálpa einhverjum útlendingum á sama tíma og þið hjálpið okkur ekki? Að stilla þessu svona upp eins og mér finnst stundum gert í umræðum er lágkúrulegt, það er aumt. Við höfum efni á hvoru tveggja, að bjarga okkar fólki og hjálpa öðrum í heiminum. Við eigum að hafa þann metnað. Við erum eitt ríkasta land í heimi, við erum það enn þá. Við erum með eina bestu þjónustu í heimi hvort sem er í heilbrigðiskerfi eða menntamálum. Við eigum að láta það skína í gegn að við þurfum samstarf við erlendar þjóðir.

Mig langar aðeins að spyrja um þverpólitísku samvinnuna vegna þess að hv. þingmaður benti réttilega á að hún væri oft ekki sem best hjá okkur. Hefur eitthvað breyst? Er einhver tilhneiging til að taka skref aftur á bak þrátt fyrir fullyrðingar í stjórnarsáttmála um að nú eigi að efla samstöðu?