143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Takk fyrir frábærar spurningar. Kannski getum við byrjað þessa þverpólitísku samstöðu á „Betra Íslandi“ með hverjum sem er. „Betra Ísland“ er opið fyrir alla; alla flokka, alla Íslendinga sem hafa áhuga á að taka þátt. Ég held að væri alveg frábært ef við byrjuðum á að óska eftir upplýsingum um hvað eru margir nefskattar og hversu margir þeirra rata á réttan stað og hvort þá sé ekki tilefni til að breyta þessu formi af margsköttun í gjöld.

Þegar Ríkisútvarpið var gert að ohf. var útvarpsgjaldinu breytt í svokallaðan nefskatt og við mörg sjáum aldrei þennan reikning af því að gjaldið er dregið af barnabótunum og fleiru. Það eru bara þeir sem fá engar vaxtabætur eða barnabætur sem fá reikninginn heim, annars er þetta bara innheimt sjálfvirkt af skattinum. Fyrir vikið er fólk til dæmis ekki eins meðvitað um hvað þetta eru háar fjárhæðir fyrir hvert heimili.

Ég væri mjög mikið til í að vinna með þessi mál. Við píratar höfum verið að kanna hvernig fólk gæti betur fylgst með hvernig sköttunum er varið og jafnvel fara í svipaðar tilfærslur og hafa verið gerðar með ákveðna tegund af fjárútlátum hjá borginni til að hvetja fólk í nærumhverfi sínu til að taka þátt og óska eftir samvinnu allra sem hafa áhuga á meira gagnsæi og meiri þátttöku almennings í að gera „Betra Ísland“ að sterkari vettvangi fyrir okkur öll.