143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við ósk forseta, mér finnst það eðlileg fundarstjórn hjá forseta að gera hlé á ræðu minni í hádegishléi. Ég geri ráð fyrir að nýta minn tíma enda er stórt mál undir, fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2014. Núna er að skýrast myndin af því hvernig nýja hægri stjórnin ætlar að ráðstafa fjármunum ríkisins á komandi ári.

Ég mun hefja ræðu mína á almennri umfjöllun um ríkisfjármál. Ég mun þá fara yfir tillögur Samfylkingarinnar vegna fjárlagagerðarinnar árið 2014 og síðan mun ég fara yfir tillögur meiri hlutans í þinginu og fjalla um stríð hans við stjórnsýsluna, stríð hans við RÚV, stríð hans við Þróunarsamvinnustofnun, stríð hans við menningu og skapandi greinar og við landsbyggðina. Af nægu er að taka, herra forseti, eins og heyra má á yfirferð minni, og svo kann að vera að ég þurfi að biðja um orðið aftur ef ég kemst ekki yfir allt sem mér liggur á hjarta.

Við megum aldrei gleyma því þegar við ræðum fjármál ríkisins að þau eru auðvitað veigamesta verkefni okkar í þinginu. Fjárveitingavaldið skiptir sköpum til þess að þau lögbundnu verkefni sem við höfum falið ýmsum stofnunum, þær áherslur sem lagðar hafa verið af Alþingi með lögum og þingsályktunum, nái fram að ganga.

Ég hef áður rætt hér í ræðustól mismunandi áherslur hægri sinnaðra stjórnmálaafla og svo vinstri sinnaðra eða félagshyggjusinnaðra stjórnmálaafla. Skattkerfið er til tekjuöflunar, þar öflum við allra teknanna sem við þurfum til þess að reka gott samfélag og við nýtum líka skattkerfið til að auka á jöfnuð og tekjujöfnun í samfélaginu. Það er gert með ýmsum hætti, fyrst og fremst í gegnum tilfærslurnar, en skatttekjurnar okkar notum við með þrennum hætti; í samneysluna, sem er öll hin opinbera þjónusta, í tekjutilfærslurnar, sem eru almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, fæðingarorlof, barnabætur, vaxtabætur og mun fleiri málaflokkar, og svo í fjárfestingar til þess að byggja upp þær einingar sem hin opinbera þjónusta fer fram í en ekki síður atvinnu- og verðmætasköpun til framtíðar.

Við sem aðhyllumst jafnaðarhugsjónina trúum því og teljum og höfum reyndar mörg góð rök fyrir þeirri áherslu að jöfnuður skipti sköpum fyrir samfélög. Það séu slæm samfélög þar sem áherslurnar einkennist af ójöfnuði en að í samfélögum þar sem jafnaðar er gætt og sanngirni sé meiri samheldni, þar sé almennt meiri velmegun og einfaldlega betra að búa.

Ef við lítum á rökin fyrir þessum skoðunum okkar jafnaðarmanna má finna þau í ýmsum alþjóðlegum samanburði. Ef við tökum samkeppnishæfni hagkerfa sem dæmi — sem ætti nú að höfða til hægri manna — eru þau samfélög sem standa sig hvað best hin norrænu velferðarþjóðfélög. Og það er engin tilviljun. Það kemur auðvitað til af því að þar er almenn menntun, þar hefur fólk aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu og ýmissi annarri þjónustu óháð efnahag. Þar eru líkur á að betur sé verið að nýta mannauð samfélagsins og svo þorir fólk einfaldlega að taka áhættu þegar það býr í samfélagi sem það veit að tekur ábyrgð á því ef það misstígur sig.

Samneyslan og það sem við notum í hana, og notum ekki í tekjutilfærslur, er fjármögnun á ýmissi opinberri þjónustu. Það er ekki síður jafnaðartæki ef við höfum öll aðgengi að sambærilegri þjónustu óháð efnahag. Það getur skipt sköpum fyrir tekjulága einstaklinga að eiga tækifæri til jafns við aðra í samfélaginu og að sjálfsögðu tryggir það velferð samfélagsins alls og ekki síst þeirra einstaklinga sem nýta þjónustuna.

Það er líka mikilvægt í opinberri þjónustu að þjónustugjöldin séu sem allra lægst, því að þjónustugjöld eru auðvitað skattheimta af ákveðnu tagi. Það er eðlilegt að við öflum í stóra skattkerfinu þeirra tekna sem þörf er fyrir en búum ekki til dulda skatta í formi þjónustugjalda.

Varðandi fjárfestingar ætti nú ekki að þurfa að segja hægri mönnum að fjárfestingar — ja, það þarf kannski að segja hægri mönnum á Íslandi það og nýhægri öflum Framsóknarflokksins — eiga náttúrlega gjarnan að vera arðbærar. Ef við leggjum fjármuni í arðbærar fjárfestingar skilar það sér til samfélagsins alls í aukinni verðmætasköpun og þar með auknum tekjum til ríkissjóðs. Það skilar sér í atvinnutækifærum fyrir vel menntað fólk og eykur líkurnar á því að við byggjum upp samfélag þar sem fólk vill búa til framtíðar. Í þeim efnum verðum við alltaf að líta til þjóða í nágrenni okkar, við þurfum að sjá hvað er að gerast á erlendri grundu og spyrja hvort líklegt sé að við stöndumst samkeppni þegar kemur að framboði á þjónustu, framboði á menningu og afþreyingu og atvinnutækifærum. Að sjálfsögðu þarf fólk að hafa atvinnu til að hafa ofan í sig og á en það nennir enginn að búa þar sem maður hefur eingöngu atvinnu en ekki þau atriði sem skipta mestu máli í lífinu, sem eru tækifæri til að eiga líf sem er þrungið merkingu og æðra markmiði.

Hér í fjárlagavinnunni hefur mikið verið rætt um jöfnuð í ríkisfjármálum enda er það siður góður að hafa reksturinn, hvort sem þar er um að ræða ríkissjóð, heimili eða fyrirtæki, réttum megin við núllið. Að öðrum kosti hlaðast upp skuldir, af þeim verður fjármagnskostnaður sem dregur úr möguleikum til þess að fjármagna aðra mikilvæga þætti í ríkisbúskapnum.

Við í Samfylkingunni lögðum fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið til þess að reyna að draga úr þeim skaða sem þar kemur fram og voru þær kynntar á blaðamannafundi nú í morgun og farið yfir helstu áherslur okkar. Það má segja að við getum með þremur setningum sagt að Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, vilji bæta kjörin, við viljum sækja fram og við viljum leggja á sanngjörn gjöld.

Skattheimta hefur markmið. Það vill enginn innheimta skatta og gjöld til þess eins að innheimta skatta og gjöld. Það þarf að muna hver tilgangurinn er með slíkri innheimtu. Ég ætla fyrst að fara yfir skatta- og gjaldatillögur okkar. Við teljum tillögur núverandi stjórnarmeirihluta í skattamálum ekki góðar varðandi milliþrepið. Við teljum að hægt væri að ná betri árangri og ná til tekjulægri hópa með annarri aðferð við að lækka tekjuskatt. Tillaga ríkisstjórnarinnar var að lækka prósentuna í milliskattþrepinu, sem þýðir að þeir allra launahæstu fá langmest út úr þeirri skattbreytingu en meginþorri launafólks á Íslandi fær hundraðkalla og eitthvað rétt yfir þúsund krónurnar. Með því að hækka aftur á móti mörk millitekjuþrepsins úr 250 þús. kr. í 350 þús. kr., sem er sami kostnaður og af tillögu ríkisstjórnarinnar, fær hinn almenni launamaður meiri skattalækkun og það nær mun neðar í tekjuskatt.

Við leggjum einnig til að fallið verði frá ýmsum gjaldskrárhækkunum enda hefur Samfylkingin í sveitarstjórnum haft forgang um að falla frá gjaldskrárhækkunum á næsta ári á sveitarstjórnarstiginu, og það er einnig rík krafa þeirra aðila sem nú eru að semja í kjarasamningum og eiga erfitt með að ná saman. Ein af grundvallarkröfunum frá báðum aðilum um efnahagsmálin er að hið opinbera stuðli ekki að frekari verðbólgu með gjaldskrárhækkunum. Við í Samfylkingunni höfum farið ítarlega yfir þetta mál og við höfum ráðfært okkur við ýmsa aðila og við teljum eðlilegt að taka undir þessa kröfu.

Yfirskrift skattatillagna ríkisstjórnarinnar er að koma til móts við millistéttina, reyndar stundum bara með 300 kr., sýnist mér. Við teljum að sjálfsögðu að þeir sem búa við verst kjör í samfélaginu eigi líka að njóta þeirra skattalækkana sem nú á að fara í. Við teljum að það verði best gert með fjárveitingum til þeirra. Í þeim hópi sem ekki mundi njóta skattalækkunarinnar eru innan við 10% launafólk á vinnumarkaði, en þar eru hins vegar námsmenn, þar eru verst stöddu lífeyrisþegarnir, fólk sem hefur framfærslu af atvinnuleysistryggingum og fleiri.

Við leggjum því til að 4 milljarðar verði veittir inn í ýmsa málaflokka svo sem eins og barnabætur, vaxtabætur og bætur almannatrygginga. Þá leggjum við líka til milljarð í húsaleigubætur eða um 23% hækkun. Þessi hækkun mun nýtast tekjulágum hópum vel og eykur á jafnræði á milli þeirra sem eiga og leigja og auðveldar uppbyggingu leigumarkaðar. Þetta er algjörlega í samræmi við ekki bara stefnu síðustu stjórnvalda heldur Sambands íslenskra sveitarfélaga og í raun þverpólitískrar sáttar um innleiðingu húsnæðisstuðningskerfis sem mismunar ekki fólki eftir því hvort það á húsnæði eða leigir. Í dag er staðan sú að hið opinbera hvetur fólk beinlínis til þess að kaupa húsnæði og þar af leiðandi er fólk sem hefur jafnvel ekki tekjur til þess að standa undir því að taka áhættu sem fylgir fasteignaviðskiptum í stað þess að fá sambærilegan stuðning í gegnum húsaleigubætur og nýtt húsnæðisstuðningskerfi.

Við leggjum til að 5 milljarðar fari í heilbrigðiskerfið. Þetta eru auðvitað breytingartillögur okkar í 2. umr. þannig að þær miða við frumvarpið eins og það leit út þegar það var lagt fram af fjármálaráðherra 1. október síðastliðinn. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að auka umtalsvert framlög til heilbrigðiskerfisins en við viljum ganga heldur lengra og viljum að þau verði alls 5 milljarðar.

Við höfnum nýjum sjúklingasköttum og við teljum innlagnargjöldin ekki réttlátari en hið upphaflega gistináttagjald á sjúklinga. Við höfnum sérstakri skattlagningu á námsmenn og leggjum því til að fallið verði frá hækkun skráningargjalda en að á móti verði Háskóla Íslands lagðar til 220 millj. kr. Við leggjum til að Ríkisútvarpið fái allt útvarpsgjaldið til rekstrar stofnunarinnar enda er það í samræmi við þau lög sem gilda um Ríkisútvarpið.

Við viljum efla atvinnuþróun og fjárfesta í framtíðinni og við viljum að staðið verði við sóknaráætlun síðustu ríkisstjórnar og áætlanir hennar um framlög til skapandi greina, rannsókna og tækniþróunar. Það er mikilvægt að muna að það eru tæp þrjú ár síðan tímamótaskýrsla um hagræn áhrif skapandi greina var kynnt þjóðinni. Það var 1. desember 2010, á fullveldisdeginum. Í þeirri skýrslu er í fyrsta sinn leitt í ljós að skapandi greinar eru einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Árið 2009 var veltan um 189 milljarðar en þar af var framlag ríkis og sveitarfélaga aðeins 12,5% eða tæplega 24 milljarðar kr.

Það er líka rétt að taka fram að við Íslendingar, þó að við þurfum að bæta ýmsa þætti í menntakerfi okkar og fjölga þeim sem eru með meira en grunnskólapróf, eigum mjög mikið af vel menntuðu fólki. Við eigum fólk sem er menntað frá öllum heimshornum með BA- og BS-gráður, með meistaragráður og doktorspróf. Það er áhyggjuefni að atvinnuleysi meðal háskólamenntaðs fólks er viðvarandi á Íslandi þó að það sé ekki hátt. Það vantar tækifæri til að fólk geti nýtt menntun sína fyrir sig en ekki síst samfélagið til að skapa verðmæti. Þess vegna var lagt mikið upp úr því í fjárfestingaráætlun okkar, sem við erum mjög stolt af enda sýndi hún framsýni og var byggð á gríðarlegri greiningarvinnu og undirbúningi með aðkomu fjölda fólks sem er líklegt til að búa yfir hæfileikum til þess að byggja upp áætlanir fyrir Ísland til sóknar. Þegar öllu þessu hafði verið safnað saman, unnið, greint og skipulagt var lögð fram fjárfestingaráætlun, mjög metnaðarfull, sem hafði það markmið að byggja upp arðsemi í íslensku atvinnulífi til framtíðar. Þar litum við að sjálfsögðu til þeirra greina sem eru framtíðaratvinnugreinar og ekki bara framtíðaratvinnugreinar heldur eru nú þegar farnar að skila samfélaginu gríðarlegum verðmætum, svo sem eins og skapandi greinar og nýsköpun á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þess vegna skiptir sóknaráætlunin í fjárfestingaráætluninni gríðarlega miklu máli. Að tala um hallalaus fjárlög um leið og menn skera niður helstu vaxtarsprota íslensks hagkerfis er í besta falli einfeldni.

Svo viljum við alvörusókn í byggðamálum og við viljum styrkja frekar byggðatengd verkefni og veita aukið fjármagn í jöfnun búsetuskilyrða. Við viljum tryggja jöfnun húshitunar á köldum svæðum, aðgang að dreifnámi og tryggja fjarskiptasjóði fé til að byggja upp háhraðatengingar um allt land. Ég held að fleirum og fleirum verði ljóst að togstreita á milli höfuðborgar og landsbyggðar skilar engu. Við sem byggjum þetta land, hvort sem við búum í höfuðborginni, á Langanesi, Hornafirði eða Bolungarvík, erum saman í félagi, félaginu Íslandi sem tekur ábyrgð á öllum sínum félagsmönnum.

Víða um land fer fram gríðarleg verðmætasköpun og með breyttum áherslum í samfélaginu, aukinni vitund um verðmæti íslenskrar náttúru, ósnortinnar náttúru, þreytu á áreiti nútímasamfélagsins, verður eftirsóknarverðara að líta til landsbyggðarinnar sem mögulegs búsetusvæðis framtíðarinnar fyrir ýmsar fjölskyldur þessa lands. Ég persónulega er sannfærð um að fleiri og fleiri munu velja að flytja sig úr stressi höfuðborgarinnar í bæi og sveitir hér um landið sem hafa upp á að bjóða einstakt umhverfi þar sem er mikil náttúrufegurð og tækifæri til að lifa góðu fjölskyldulífi. Forsenda þess eru auðvitað ekki bara góð atvinnutækifæri heldur líka góð opinber þjónusta og fólk vill ekki búa í fábreytni. Það vill hafa aðgengi að því sem fyllir lífið gleði og tilgangi og þá er ein heildarlausn í atvinnumálum ekki svar við þeim þörfum. Aðgengi að háhraðanettengingu er eiginlega grundvöllur fyrir því að svo geti orðið.

Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu sem ég hélt hér um hvernig fólk færi að án almennilegrar nettengingar en við vitum það öll sem notum internetið daglega og erum mjög háð því í okkar lífi að það er mjög mikil skerðing á lífskjörum að hafa ekki aðgang að því. Það er mjög bagalegt að meiri hlutinn í þinginu hafi hafnað tillögu okkar í fjárauka um að standa við að fé yrði látið renna í fjarskiptasjóð til að stuðla að því markmiði að allir hafi aðgang að háhraðatengingum. Við komum því með þessar tillögur hér inn í fjárlög 2014.

Við viljum standa við áætlun um þróunarsamvinnu sem var endurskoðuð og samþykkt vorið 2013 af öllum þingmönnum nema einum. Við viljum halda áfram með áform um lengingu fæðingarorlofs í eitt ár í áföngum enda teljum við það mikilvægt réttindamál fyrir börn þessa lands og foreldra þeirra. Við viljum veita rúmlega 500 millj. kr. til framhaldsskólanna til að taka á rekstrarvanda þeirra og styrkja þróunarstarf um bætt skólastarf.

Allt kostar þetta skildinginn og við leggjum auðvitað til fjármögnun á móti enda vitum við vel hvað í því felst að axla ábyrgð á ríkisfjármálum, hafandi verið hér í erfiðum niðurskurði síðastliðin fjögur ár þó að okkur hafi líka tekist að verja velferðina og leggja til fjármuni í vaxtarbrodda samfélagsins.

Helstu tekjuáform okkar eru áætlun um 3,5 milljarða í tekjur vegna útboðs á leiguheimildum til makrílveiða. Við höfum farið þó nokkuð yfir þessi mál og leggjum áherslu á að þetta verði gert í samráði við hagsmunaaðila þannig að það verði útfært með sem bestum hætti. Við áætlum tekjur vegna hækkunar sérstaks veiðigjalds verði 2,1 milljarður til samræmis við tillögur okkar frá í sumar. Glænýjar afkomutölur sjávarútvegsins frá Hagstofu sýna skýrt að ekkert er því til fyrirstöðu að hækka þetta gjald, en tekjurnar verða aðeins þriðjungur af því sem þær hefðu orðið ef ríkisstjórnin hefði stutt tillögur okkar í sumar því að það er þegar búið að leggja á gjöld fyrir yfirstandandi fiskveiðiár sem hófst í haust.

Við gerum ráð fyrir að leggja 6 milljörðum meira á í bankaskatt en ríkisstjórnin hyggst gera. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa fullyrt að þetta sé örugg tekjulind. Ef hún er jafn örugg og látið er í veðri vaka væri fráleitt að nýta hana ekki betur og til annarra verkefna en bara skuldaleiðréttingar. Við teljum að það megi sækja meira þangað og nota til atvinnuþróunarverkefna sem eru tímabundin í eðli sínu og ganga út frá því að frítekjumark verji minnstu fjármálafyrirtækin. Svo gerum við ráð fyrir 3 milljarða heimtum úr sérstöku átaki til að herða skatteftirlit.

(Forseti (KLM): Nú vildi forseti gjarnan óska eftir því við hv. þingmann að hann geri hlé á sinni ræðu.)

Þingmaðurinn verður við því, virðulegi forseti.

(Forseti (KLM): Takk fyrir það. Þá verður þessum fundi frestað til klukkan 1.30 vegna fundar í fjárlaganefnd.)