143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hefði hv. formaður fjárlaganefndar lagt við hlustir og einbeitt sér hefði hún heyrt að ég fór hér yfir í ræðu minni að við lögðum fram þingsályktunartillögu um aukin framlög til þróunarsamvinnu. Þessi auknu framlög eru í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna um að ríki veiti 0,7% af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar. Það var einn þingmaður sem ekki greiddi atkvæði með þeirri áætlun, það var hv. formaður fjárlaganefndar sem taldi þetta óþarfa og bruðl — hún getur kannski skýrt út fyrir okkur sjálf hvers vegna hún taldi eðlilegt að vera á móti slíku.

Ef það er óeðlilegt að ætlast til þess að Alþingi veiti fé í samræmi við eigin ályktanir tel ég þingmanninn vera að misskilja fjárveitingahlutverkið. Það á að fara fram í samræmi við áherslur sem fram koma í lögum og þingsályktunum og þessi niðurskurður er í andstöðu við það sem Alþingi hefur þegar ákveðið.

Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér þessa tillögu (VigH: Þekki hana vel.) og veita fé í samræmi við vilja þingsins en ekki sinn vilja en hún var ein þingmanna á móti.