143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að það hafa ekki breyst neinar forsendur í ríkisfjármálum á Íslandi nema sá forsendubrestur varð að hér komu hægri (Gripið fram í.) og nýhægri öfl til valda sem hafa ákveðið að rýra tekjustofna ríkissjóðs, draga úr vaxtarmöguleikum hagkerfisins og skera niður á móti með flausturskenndum hætti. Það sem ég benti hér á í ræðu minni er að það er engin vægð þar sem helst skyldi vægja. Það sem ég benti líka á í ræðu minni er að eini þingmaðurinn sem lagðist gegn samþykkt þessarar tillögu var hv. formaður fjárlaganefndar.

Hér koma tillögur í andstöðu við vilja þingsins og það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að skera niður framlög til barna og kvenna (Forseti hringir.) sem geta skapað skilin milli lífs og dauða. (VigH: Eins og á Landspítalanum.)