143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm Katrín Jakobsdóttir höfum skorið fullt niður. Við vitum alveg hvað það er erfitt. Stundum var það ekkert mjög erfitt, þegar voru aðstæður til þess á ákveðnum fjárlagaliðum en á öðrum var það flókið og lagði mikla vinnu á þá sem áttu að framfylgja þeim niðurskurði að finna leiðir til þess að ná sama árangri með mun minna fjármagn og forgangsraða og ákveða hverju ætti að sleppa.

Ég held að það skipti máli, af því að á milli umræðna koma umfangsmiklar breytingartillögur, að þingmenn geri sér grein fyrir því hvað það þýðir að þeir skeri til viðbótar niður um 5% til ráðuneytanna, sem er auðvelt að segja, eitthvert embættismannakerfi, sem starfar reyndar í þágu landsmanna — og líka í þróunaraðstoðinni. Hvaða verkefni eru það sem við erum að slá út af borðinu? Verkefni sem varða velferð og heilsu fátækasta fólks í heimi.