143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kann ekki alveg sögu desemberuppbótarinnar en hitt þekki ég að hún hefur rutt sér til rúms og verið tekin upp í auknum mæli, þar á meðal til atvinnulauss fólks. Við gerðum það í tíð fyrri ríkisstjórnar, þrátt fyrir niðurskurðinn allan vildum við láta desemberuppbót ganga til atvinnulausra.

Á þessari stundu treysti ég mér ekki til að svara því hvernig þetta hefur verið í almannatryggingakerfinu almennt. Hitt veit ég að þetta er greiðsla sem verið er að taka af fólki núna. Þetta er orðinn fastur liður. Við skulum hafa í huga hversu agnarsmáar þessar upphæðir eru sem verið er að skammta fólki, hvort sem er af lægstu bótum almannatrygginga eða atvinnuleysisbótum. Ég nefndi þessar tölur áðan, atvinnuleysisbæturnar nema núna 172.609 kr. og desemberuppbótin fyrir atvinnulausa er 50.152 kr. Það hefur verið allur gangur á því hvað er að finna í kjarasamningum hvað þetta snertir. Þar sem ég þekki til, og þá er ég að horfa til opinbera geirans þar sem ég var í starfi lengi hjá samtökum launafólks, lögðum við mjög ríka áherslu á þetta. Það er alveg eins og hv. þingmaður nefndi, á jólunum og í þessum mánuði eru útgjöldin meiri en gerist alla jafna á öðrum mánuðum ársins.