143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég hlakka til að skoða þetta aðeins betur. Til að árétta hvað ég átti nákvæmlega við er það ekki bara það að öryrkjar og atvinnulausir fái ekki desemberuppbótina, jafnvel þótt það væri bara til að borga reikningana, það er ekki punktur minn, heldur að við undanskiljum þau í raun og veru frá því að taka þátt í jólunum, að taka þátt í þessari trylltu góðmennsku sem maður vonar að jólin snúist um.

Hv. þingmaður var í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabil. Því meira sem ég skoða þetta fjárlagafrumvarp, því meira undrandi verð ég á því að það hafi tekist að skera þó þetta mikið á hallann sem myndaðist í kjölfar hrunsins. Nú veit ég að það var farin svokölluð blönduð leið, þ.e. leið tekjustyrkingar eða skattahækkana og niðurskurðar, eins óþægilegt og það er, sérstaklega fyrir vinstri stjórn. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir að hafa þó haft kjarkinn til að takast á við þau verkefni því að það er sennilega erfiðast fyrir Vinstri græna og Samfylkinguna af öllum flokkum að þurfa að gera það sem þurfti að gera. Ég velti fyrir mér hvort það séu einhver nánari fræði á bak við það hvernig þetta var gert. Þrátt fyrir þau vandamál sem að okkur steðja núna finnst mér árangurinn ótrúlegur miðað við það sem við horfðum framan í á sínum tíma.

Hv. þingmaður nefndi með útlendinga í námi hér að þetta gæti borgað sig fyrir okkur. Ég er því sammála en þá fer ég einmitt að velta fyrir mér langtímafjárfestingum. Af hvaða helstu aðferðum tekur hv. þingmaður mið þegar taka þarf ákvarðanir um fjárútlát til langtímafjárfestinga á borð við nám eða eins og ég mundi segja lýðræðisumbætur sem ég tel svolítið áhugaverðan vinkil?

Nú hef ég ekki meiri tíma, en hvaða fræði eru það helst sem hv. þingmaður mundi taka til við ákvörðun (Forseti hringir.) um langtímafjárfestingar?