143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:54]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hefði viljað að hv. þingmaður hefði haft betri tíma því að hann vekur upp mjög áhugaverða og góða umræðu.

Það er alveg rétt að við reyndum að fara blandaða leið. Sumt tókst vel, annað síður. Ég tel að við höfum skorið of mikið niður í velferðarþjónustunni, heilbrigðisþjónustunni. Það sem við gerðum best, tel ég vera, voru áherslur í skattkerfinu. Þar tókst okkur að jafna kjörin og fara út á brautir sem skila árangri.

Einnig tel ég, af því að þingmaðurinn er að velta fyrir sér sýn á framtíðina, að áhersla okkar á að styrkja nýsköpun og sprotafyrirtæki hafi verið mjög góð og komi til með að skila okkur miklum árangri inn í framtíðina ef það verður ekki eyðilagt eins og maður óttast að sé að gerast með mikilli skammtímahugsun sem hefur birst í þessu fjárlagafrumvarpi frá ríkisstjórninni, því miður. Ég tel að þarna hafi okkur tekist mjög vel upp, að horfa inn í framtíðina með tilliti til markmiðssetningar sem byggði á fjölbreytileika, nýsköpun, að efla vísindastarf og þar fram eftir götunum. Okkur tókst vel til í skattáherslum. Okkur tókst að jafna kjörin alveg gagnstætt því sem nú er að birtast í afnámi auðlegðarskatts, ívilnun til útgerðarinnar og allra sem meira mega sín á kostnað þeirra sem minna mega sín, því miður. Í þessu birtist munurinn.

Ég legg áherslu á að á ýmsum sviðum tókst okkur ekki nægilega vel upp. Ég horfi þar til niðurskurðar í velferðarkerfinu, í heilbrigðiskerfinu sérstaklega, og á ýmsum sviðum. Þar var gengið of (Forseti hringir.) langt fram, held ég, en þegar dæmið er gert upp heildstætt held ég að við komum út í plús.