143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:58]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að því leyti sem þetta er hugsað held ég að þetta sé liður í því að markaðsvæða heilbrigðiskerfið, það sé enginn munur á því hvort þú ert á einkarekinni klínik eða uppi á Landspítala, almannarekinni heilbrigðisþjónustu. Síðan á að koma eitthvert jöfnunarkerfi þar ofan á. Þetta er hugsun sem gengur út á að umbylta kerfinu í átt til markaðsvæðingar. Markaðsvætt heilbrigðiskerfi er dýrasta heilbrigðiskerfi sem hugsast getur, það er bara staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við.

Ég er hjartanlega sammála þingmanninum um desemberuppbótina, við getum ekki farið úr þessum þingsal fyrir jólin nema við höfum afgreitt breytingar á fjárlögum þess efnis að atvinnulaust fólk fái desemberuppbót. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Helga Hjörvar hvað þetta snertir.

Ég er einnig sammála honum um gjöldin sem á að setja á háskólastúdenta. Þau eru ósanngjörn en þau eru líka ógagnsæ eins og svo margt í þessu fjárlagafrumvarpi og í fjáraukanum sem við höfum verið með til umræðu að undanförnu. Þar þarf mikla íþrótt hugans til að átta sig á því hvað er raunverulega að gerast. Í skýringartextum erum við færð upp og svo aftur niður og síðan er eitt tekið til baka sem var sett til okkar á öðrum stað. Þetta er eins ógagnsætt og illa hugsað sem verða má.

Aðeins aftur um sjúklingaskattinn, þá er þetta alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að menn þurfa að hugsa: Hvað er það sem vakir fyrir mönnum? Einu sinni var talað um að setja ætti á gjöld til að auka kostnaðarvitund sjúklinga, að þeir vissu hvað þeir kostuðu samfélagið. Ég skildi þetta aldrei. Ég hef aldrei hitt fólk sem situr á morgnana í kaffi og veltir því fyrir sér hvort það eigi að smella sér kannski út í heilsugæslu til að líta á eyrun eða magann eða hvað það nú er. Fólk fer til læknis (Forseti hringir.) að jafnaði vegna þess að það er eitthvað að og fólk er lagt inn á sjúkrahús vegna þess að það er veikt (Forseti hringir.) og þá skattleggjum við það ekki.