143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður þarf að hafa hraðar hendur á einni mínútu, en annað sem einkennir þetta frumvarp er sú staðreynd að það er horfið frá markmiðum um samfélagslegan jöfnuð. Það var gríðarlega viðamikið og mikilvægt verkefni á síðasta kjörtímabili, til viðbótar við það að takast á við efnahagshrunið freistuðum við þess að ná meiri samfélagslegum jöfnuði.

Hér eru mjög grimm og drastísk pólitísk merki eins og sjúklingaskattar, desemberuppbót hafnað, hærri skráningargjöld í háskólana, ráðist að Fæðingarorlofssjóði, ráðist á Ríkisútvarpið o.s.frv., þannig að við sjáum skýr merki um að það er verið að hverfa frá markmiðum um samfélagslegan jöfnuð. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi á sínum tíma sem áhorfandi og þátttakandi í íslenskum stjórnmálum séð eins afgerandi merki um stjórnmálastefnu sem ágætur (Forseti hringir.) þingmaður nefndi hér fyrr í dag nýhægri stefnuna.