143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:50]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðuna og útskýringar á þessu plaggi sem ég vil líkja við jólagjafalista barnanna. Þetta er listi upp á 15,5 milljarða og ég spyr um forgangsröðunina. Ég hélt að þetta mál snerist um að forgangsraða, en hér er bara óskalisti um aukin útgjöld. Hjá háskólanum eru í viðbót við 10,7 milljarða 220 milljónir, myndlistarsjóður á að fá 40 milljónir og Miðstöð íslenskra bókmennta 40 milljónir. Svona má lengi telja.

Hvernig á að afla tekna? Jú, það eru skattar á bankastarfsemi, sem þeir höfðu ekki kjark til að leggja á á síðasta þingi, og auðvitað er það svo útgerðin, það eru 3,5 milljarðar á makrílaflann. (Forseti hringir.) Við jukum um 40% veiðigjöldin á (Forseti hringir.) þennan flota og ég spyr: Ætlar hann að auka þau um 3,5 milljarða? Er það tilfellið?