143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg sjónarmið í úthafsrækjunni að einhver hluti af þeirri kvótasetningu færi líka til ríkisins vegna þess að þetta er tegund sem hætt var að veiða. En ríkisstjórn sem ætlar að láta þá sem eru búnir að byggja upp úthafsrækjustofninn (Gripið fram í.) á síðustu árum (PJP: Hvenær …?) bara fá 30% getur ekki reynt að halda því fram að það sé ósanngjarnt í makríltilvikinu að þeir sem höfðu veiðireynsluna þar fái 30%. Það er einfaldlega rökleysa. Við erum opin fyrir því að virða veiðireynsluna, við teljum það skynsamlegt og efnisrök fyrir því.

Útfærslan varðandi makrílinn að öðru leyti er einmitt það sem ég mundi vilja ræða með auðlindahagfræðingum því að það skiptir mjög miklu máli að gera þetta vel. Ég vil að greinin komi að því, þ.e. að passa að við gerum veiðar ekki (Forseti hringir.) óarðbærar en að við tökum eðlilegan arð af greininni. (Forseti hringir.) Það er það sem ríkisstjórnarmeirihlutinn klikkaði á í sumar (Forseti hringir.) þegar hann bjó til nýja afsláttargjaldið. (PJP: Ekkert svar.)