143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ágætur stjórnmálamaður, fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sagði einu sinni að það væri ekki vísra manna ráð að hoppa yfir lækinn 300 metrum áður en maður kæmi að honum. Ég er alveg sammála því, við urðum auðvitað að fá að sjá hvernig fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar liti út.

Það gerðist nefnilega hér frammi í beinni útsendingu eftir stefnuumræðu ríkisstjórnarinnar að forsætisráðherrann sem stóð við hliðina á mér í viðtali við Ríkisútvarpið afneitaði fjárlagafrumvarpinu. Hann sagðist ekki standa við það. Og síðan erum við búin að bíða eftir tillögum þessarar verklausu ríkisstjórnar um það hvernig þetta fjárlagafrumvarp ætti að líta út og hverjar meginlínurnar yrðu. Það varð ekki ljóst fyrr en í gærmorgun þegar hv. þingmaður og félagar hans í meiri hlutanum náðu að krafsa saman einhverju sem líkist meirihlutaáliti.

Við sáum þá heildarmyndina eins og hún leit út af hálfu meiri hlutans og mótuðum okkar tillögur til samræmis við það.