143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það í fyrsta lagi alveg ljóst að ef ríki og sveitarfélög mundu hækka sínar gjaldskrár um 3,8% væri forsendan um 3,8% fallin og alveg örugglega ekki fyrir hendi. Ég held líka að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar feli í sér almenna aðgerð til að flytja skattbyrði yfir á markaða tekjustofna þar sem fólk nýtur hvorki persónuafsláttar né fjölþrepaskattkerfis. Það felst í sjálfu sér í því að flytja skattbyrði yfir á lágtekjufólk og það hefur auðvitað áhrif í kjarasamningum.

Það má ekki gleyma því að tekjuskerðingarmörk eru líka enn mjög lág, tekjuskerðingarmörk í barnabótum byrja að tikka við 200 þús. kr. tekjur. Það er lægra en lágmarkslaun nú þegar. Þegar síðan bætist við að lágtekjufólkið borgar jafn hátt útvarpsgjald og Sigmundur Davíð og jafn hátt skráningargjald og þeir sem hafa meira á milli handanna er augljóslega verið að búa til aukið misræmi. Við erum að draga úr (Forseti hringir.) tekjujöfnunarkerfi tekjuskattskerfisins og það er alvarlegt vandamál.