143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:52]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé málið að þetta byggist allt á heimilunum. En það var öllum ljóst og aldrei var talað um annað en að þetta væri aðeins eitt skref af mörgum og að þessi aðgerð mundi ekki hjálpa öllum enda er þetta ekki eina aðgerðin.

Ég hjó eftir öðru hjá hv. þingmanni að hann spurði hvernig kirkjan væri ef hún væri ekki ríkisrekin. Þetta er ekki alveg þannig, því að í gildi er samningur milli kirkjunnar og ríkisins. Ríkið fékk land hjá kirkjunni og samningurinn var greiðsla inn í framtíðina, það er ákveðinn samningur sem ríkið verður væntanlega að standa við.

Varðandi tekjuöflunina í frumvarpi ykkar. Þið sögðuð að með pólitískum vilja hefði verið hægt að útfæra veiðileyfagjaldið öðruvísi, með réttlátara hætti. En ég spyr: (Forseti hringir.) Hvernig var hægt að gera það á réttlátari hátt en að auka gjaldið á stærstu fyrirtækin (Forseti hringir.) þar sem arðsemin er mest, sem var að koma í ljós í nýjum Hagtíðindum?