143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða og efnisríka ræðu. Í lokaorðunum minntist hann á reynslu sína af kjördæmaviku og ummælum manna í Skaftárhreppi sem báðu um að stjórnmálin færðu fólki einhverja von. Það er auðvitað dapurlegt með þessu fjárlagafrumvarpi hvernig ríkisstjórnin keppist við að slökkva ljósin í viðkvæmustu byggðum landsins eins og Skaftárhreppi.

Það var alveg ótrúleg gjöf frá ríkisstjórninni að draga til baka uppbyggingarverkefnin í Skaftárhreppi sem sveitarfélögin á Suðurlandi höfðu sett í forgang af sinni hálfu í sóknaráætlun og ganga beinlínis gegn þörfum þessarar byggðar, sem líklega telst meðal brothættustu byggða á landinu.

Hver er afstaða hv. þingmanns til fjárlagafrumvarpsins eins og það nú stendur? Finnst honum að meiri hlutinn hafi gert einhverjar breytingar í rétta átt hvað þetta varðar?