143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega hafa orðið breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Bætt var aðeins inn í sóknaráætlun sveitarfélaga, sem var bara mjög gott, en ekki nógu miklu. Ég vil ekki taka svo sterkt til orða eins og hv. þingmaður að ríkisstjórnin hafi slökkt ljósin kannski, en auðvitað dró hún verulega úr þessu. Og það var náttúrlega mjög neikvætt og ekki gert til þess að auka fólki von að slá þessa fjárfestingaráætlun út af, sem var vel unnin og mjög vel ígrunduð í samstarfi við marga úti um allt land.

Mér finnst það eitt af því sem hefur slegið mig svo mikið hvernig menn geta tekið vinnu, margra ára vinnu, og hent henni út um gluggann. Það er nákvæmlega eins og með náttúruverndarlögin, fjárfestingaráætlun, sóknaráætlun sveitarfélaga eða landshluta, aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Þetta hefur kostað okkur gríðarlega peninga og svo henda menn þessu út um gluggann. Mér finnst það mjög ámælisvert. En þeir koma aðeins til móts við okkur og það er aðeins smáglæta en það hefði auðvitað mátt vera meira.