143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að eitthvað virðist meiri hlutinn aðeins hafa vaknað en auðvitað þarf meira að gera til að bregðast við þörf brothættra byggða.

Annað sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í, vegna þess að nokkuð hefur í andsvörum verið rætt um heimilin og þarfir heimilanna. Með breytingartillögum sínum núna virðist meiri hlutinn vera að ganga gegn sumum heimilum, það er sem sagt þannig að núverandi ríkisstjórn er ríkisstjórn sumra heimila á kostnað annarra.

Það er athyglisvert að skerðingin á vaxtabótunum núna þýðir að fólk sem keypti íbúðir sínar eftir 2010 má bara éta það sem úti frýs fyrir þessari ríkisstjórn. Það fólk sem reiknaði með vaxtabótunum þarf að þola það núna að grundvellinum undan fasteignakaupum sé kippt undan því. Það fólk mun ekki fá neitt út úr leiðréttingunni miklu. Fólk sem keypti á árunum 2005–2008 mun ekki fá neitt umfram þá sem keyptu fyrir 2005. Og þeir sem keyptu til dæmis fyrir 2003, sem eru enn þá í bullandi gróða, munu fá mesta peningana.