143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög skilmerkilegt og vel yfir farið hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Ég veit ekki alveg hvort þetta er rétt, ég bara viðurkenni vankunnáttu mína með það og ég skammast mín ekkert fyrir það að segja að það er margt sem ég ekki skil og áskil mér rétt að læra það á næstu árum hvernig á að bregðast við þessu.

Ég vil segja það enn og aftur að auðvitað kemur það bara í ljós hvort þetta er satt eða ekki, hvort þessi heimili fái aðstoð eða ekki. En fyrir mér stendur upp úr í fjárlagafrumvarpinu að það er ekki nógu mikil framtíðarsýn í því og ekki er verið að hjálpa þeim sem verst standa í samfélaginu. Og nú erum við að fara að sjá kjarasamninga fara í gang og ég er ekkert voðalega bjartsýnn, en ég vona að það leysist og við getum rætt málin og leyst vanda heimilanna í sameiningu. Ég vona svo sannarlega að í þeirri kjarabaráttu verðum við, bæði atvinnurekendur og stjórnmálamenn, hliðhollir fólkinu sem mest þarf á því að halda í samfélagi, að því verði hjálpað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)