143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

IPA-styrkir.

[15:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. forsætisráðherra hér í dag og inna hann eftir upplýsingum um það hvort í gangi sé, eins og ráða mátti af ummælum hv. þm. Birgis Ármannssonar um helgina, vinna á vegum stjórnvalda til þess að kanna hvort Evrópusambandið hafi brotið samningsskyldur sínar í gagnkvæmum samningum við Ísland með því að hætta greiðslu fjár vegna IPA-styrkja. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að hingað til hefur það verið afstaða hæstv. forsætisráðherra og félaga hans að þessir styrkir væru af hinu illa, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur rakið, og tilgangur þeirra væri að koma landinu inn í Evrópusambandið, ekki gera það í stakk búið til að taka ákvörðun um hvort það vilji ganga inn síðar eða ekki. Lýsingar hæstv. utanríkisráðherra hafa verið heldur fjálglegri. Hann hefur eins og sumir aðrir þingmenn lýst IPA-styrkjum eins og glerperlum og eldvatni og ölmusu Evrópusambandsins í hendur Íslendinga.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort einhver vinna sé í gangi að því leyti að reyna að fá Evrópusambandið til að standa við skuldbindingar um greiðslu fjár vegna IPA-styrkja á grundvelli samningsskyldna. Ef svo er vil ég byrja á að spyrja: Af hverju var þá ekki farið fram á það í sumar við Evrópusambandið að IPA-verkefnin héldu áfram þegar ríkisstjórnin hóf þá ferð án fyrirheits að slá úr og í um það hvort við héldum áfram aðildarumsókn eða ekki? Ef þessi vinna er í gangi og það er ætlun ríkisstjórnarinnar að knýja Evrópusambandið með einhvers konar samningsrökum til að inna greiðslur af hendi, hver er þá tilgangurinn? Er það til þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði síðast í ágústmánuði að væri tilgangur þessara styrkja, eða er það vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er farinn að þorna í kverkunum og þráir meira eldvatn?