143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

IPA-styrkir.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, ég hef ekkert verið sérlega hrifinn af því markmiði sem Evrópusambandið setti okkur með þessum IPA-styrkjum enda hefur komið augljóslega fram, nú þarf maður ekki lengur að velta því fyrir sér, að tilgangur þeirra var að undirbúa Evrópusambandsaðild Íslands, þ.e. þetta voru svokallaðir aðlögunarstyrkir. Hins vegar var búið að gera ýmsar ráðstafanir á grundvelli þess að ákveðið hafði verið að taka við þessum styrkjum. Sú ákvörðun var tekin í tíð síðustu ríkisstjórnar og ýmsar stofnanir gerðu ráðstafanir út frá því. Þegar ekki er svo staðið við að afhenda þá styrki sem fyrirheit höfðu verið gefin um og þessar stofnanir höfðu réttmæta ástæðu til að ætla að mundu skila sér taldi formaður utanríkismálanefndar og fulltrúar þar, og hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst sömu skoðun, að þá væri eðlilegt að menn skoðuðu réttarstöðu þeirra stofnana sem höfðu gert ráðstafanir í trausti þess að búið væri að semja um að þær fengju þessa tilteknu styrki. Út á það gengur þetta, ekki að halda áfram að bæta við nýjum IPA-styrkjum heldur er þetta eingöngu spurning um réttarstöðu þeirra stofnana sem höfðu gert ráðstafanir á grundvelli ákvarðana sem höfðu verið teknar í tíð síðustu ríkisstjórnar.