143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

upplýsingar um málefni hælisleitenda.

[15:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Innanríkisráðuneytið hefur verið viðfangsefni fjölmiðla að undanförnu vegna upplýsinga sem virðast hafa lekið úr ráðuneytinu, eða einhverri af stofnunum þess, um málefni tiltekins hælisleitanda. Ég ætla ekki að fara út í það tiltekna mál hér, en vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hún hafi gert til að komast til botns í því hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur rötuðu í fjölmiðla. Burt séð frá því máli sem þessi gögn tengjast verður að segjast að það er mjög óheppilegt að uppi sé óvissa um hvernig þessi gögn láku út.

Mér er kunnugt um að hæstv. ráðherra hafi komið á fund hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna málsins, en mér skilst líka að enn sé óvissa um það hvernig þessi tilteknu gögn komust í hendur fjölmiðla, hvaðan þau komu, hvort það var frá embættismönnum eða aðstoðarmönnum ráðherra eða eitthvað slíkt. Þetta er enn óvitað. Nú ætla ég ekki að setja mig í neitt dómarasæti en vil hins vegar segja að það er ekki gott að gögnum sem geta skaðað borgarana sé lekið í fjölmiðla, ekki aðeins út af þessu tiltekna máli heldur þar með skaðast traust stofnana sem við verðum að geta treyst og eru undirstöður í því samfélagi sem við byggjum.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þetta mál hafi verið rannsakað, hvort hún sjái fram á að þetta mál verði upplýst því að ég tel fordæmi skipta hér verulega miklu máli. Þetta eru viðkvæm mál þar sem við verðum að geta treyst því að stjórnsýslan virki og því er svo mikilvægt að svona mál séu upplýst.