143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

upplýsingar um málefni hælisleitenda.

[15:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hún sagði hér að sér væri í raun ekki kunnugt um hvað hefði gerst, hvernig þessi gögn hefðu komist í hendur fjölmiðla. Ég skil hæstv. ráðherra þannig og óska þá eftir því að hún staðfesti það í seinna svari sínu.

Það sem mig langar að fá á hreint er hvort hæstv. ráðherra líti þá svo á að rannsókn málsins innan ráðuneytisins sé lokið og að málið verði ekki upplýst eða hvort eitthvað verði áfram skoðað hvernig þetta gekk til.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er mikilvægt mál að því leyti að þegar svona nokkuð kemur upp rýrum við traust stofnana samfélagsins. Þess vegna lít ég svo á að þó að alltaf geti eitthvað slíkt komið upp á sé mikilvægt að svona mál séu upplýst þannig að allir borgarar geti treyst á það að málsmeðferð þeirra sé réttlát og geti treyst þessum undirstöðustofnunum samfélagsins.