143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

upplýsingar um málefni hælisleitenda.

[15:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég upplýsti það hér áðan og segi það bara aftur að við getum ekki fundið því stað, forsvarsmenn og stjórnendur ráðuneytisins, að þessi gögn hafi farið út úr ráðuneytinu. Við getum auðvitað ekki heldur leitað af okkur allan grun hvað það varðar í undirstofnunum ráðuneytisins.

Eins og ég fór yfir áðan fara þessi gögn nokkuð víða og við þurfum að skoða hvort þau fari of víða. Við þurfum að ræða það og fara yfir það. En líka til þess að árétta það, vegna þess að hv. þingmaður heldur því hér fram að ákveðnir fjölmiðlar séu með þessi gögn, þá höfum við ekki fengið staðfestingu á því. Við höfum einungis munnmæli um það. Þeir sem hafa sent þessi gögn, og það eru ekki einu sinni sambærileg gögn og eru til í ráðuneytinu, eru einstaklingar en ekki ákveðnir fjölmiðlar þannig að því sé til haga haldið.

Ég tek undir það með hv. þingmanni, ég held að við eigum að skoða það stöðugt og vera í stöðugri eftirgrennslan og eftirfylgni með að tryggja að trúnaðarupplýsingar fari ekki þangað sem þær eiga ekki að fara. Það er alveg skýrt. Og ráðuneytisstjórinn í innanríkisráðuneytinu hefur leitað af sér allan grun innan ráðuneytisins með það, en við verðum að tryggja að múrarnir séu eins þéttir og þeir mögulega geta verið og þess vegna þurfum við að rýna það. Ég tel þetta gefa ástæðu til þess að við eigum að rýna það hvort gögnin geta komist í hendur of margra og hvort við hugsanlega dreifum þeim of víða.