143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

álver í Helguvík.

[15:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í upphafi síðasta kjörtímabils ritaði fulltrúi þáverandi ríkisstjórnar undir fjárfestingarsamning vegna álvers í Helguvík. Það var gert eftir að lög um slíkan samning höfðu verið samþykkt á hinu háa Alþingi. Þegar því máli var lokið má segja að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að álverið gæti farið af stað nema þá viðskiptalegar forsendur, þ.e. samningar um orkukaup við aðila eins og til dæmis HS Orku sem er einkaaðili á orkumarkaði. Við lentum hins vegar í því æ ofan í æ á síðasta kjörtímabili að fá að heyra það héðan úr þessum þingsal og utan úr samfélaginu, frá stjórnmálamönnum sem voru ekki okkar megin í pólitík, að ástæðan fyrir því að ekkert gerðist í Helguvíkurmálinu væri þessi vonda vinstri stjórn sem væri að bregða fæti hér fyrir alla atvinnusköpun.

Þetta heyrðum við oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Nú eru að koma fregnir af því að verkefnið sé að sigla í strand og sé siglt í strand, þ.e. að það sé ekki arðbært miðað við forsendurnar sem nú eru uppi og að þess vegna verði ekkert af því. Menn eru að greina frá því með greiningaraðilum í Bandaríkjunum og það er dálítið stórt upp í sig tekið af forstjóra fyrirtækis ef hann segir þetta við slíka aðila þannig að það er nokkuð ljóst að mikil alvara er þarna að baki.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra sem var sú sem fór kannski hvað hæst fyrir þeim hópi og fremst í flokki þess hóps sem kallaði okkur hér á síðasta kjörtímabili atvinnustoppara, þ.e. að við stæðum í vegi fyrir því að þetta álver gæti orðið að veruleika; ég vil spyrja hana fyrst hún sagði sjálf, þegar hún tók við í ráðuneytinu síðasta vor, að nú væri komið að því að hún ætlaði að ryðja öllum hindrunum úr vegi til að þetta gæti orðið að veruleika: Hvaða hindranir voru á borðinu hjá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) þegar hún kom inn í iðnaðarráðuneytið í fyrsta lagi? Og í öðru lagi: Hvernig tókst þessari ríkisstjórn að klúðra þessu máli á eingöngu sex mánuðum?