143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

álver í Helguvík.

[15:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var engu svarað sem ég spurði um. Ég spurði: Hvaða hindranir hafa verið uppi á borði sem vonda vinstri stjórnin skildi eftir sig og ítrekað hefur verið talað hér um? Það kom ekkert fram um það í svari hæstv. ráðherra. Það er vegna þess að þær voru engar og höfðu ekki verið frá því að skrifað var undir fjárfestingarsamning snemma árs 2009. Það var bara svo einfalt.

Það var engin ákvörðun sem fráfarandi ríkisstjórn gat tekið eða tók til að stöðva málið, svo langt var það komið. Þess vegna er það eðlileg spurning af minni hálfu að ráðherrann — eitt af því fyrsta sem hún segir þegar hún kemur í stól ráðherra er að hún ætli að ryðja úr vegi öllum hindrunum og ætli að tryggja að þetta verkefni verði að veruleika. Sex mánuðum síðar: Bingó, búið, bless.

Virðulegi forseti. Þess vegna er eðlilegt að við spyrjum hvernig þessari ríkisstjórn tókst að klúðra málinu á sex mánuðum. Það lifði þó áfram í þau fjögur ár sem vonda vinstri stjórnin var hér. Þannig er það bara. Það voru engin mál uppi á borði, það er greinilega ekkert sem hæstv. ráðherra gat gert (Forseti hringir.) þannig að gjálfrið á síðasta kjörtímabili var orðin tóm og (Forseti hringir.) lýðskrum.