143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

áframhald aðildarviðræðna við ESB.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi fyrri spurninguna, þá er það rétt að gert var hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og slíkt er ekki einsdæmi. Kýpur gerði á sínum tíma hlé á viðræðum sínum við sambandið og tók svo upp þráðinn að nýju og gerðist aðili. Sviss gerði líka hlé á viðræðum sínum við Evrópusambandið og hefur ekki tekið upp þráðinn að nýju núna meira en tveimur áratugum seinna.

Hins vegar má líta svo á að Evrópusambandið hafi sent Íslendingum þau skilaboð að það líti svo á að viðræðum Íslands við Evrópusambandið sé lokið með ákvörðuninni sem Evrópusambandið tók um IPA-styrkina, þ.e. að falla frá því að veita þá IPA-styrki sem búið var að lofa hér og stofnanir höfðu gert ráðstafanir til að taka við, jafnvel lagt í nokkurn kostnað. Að menn skyldu ganga það langt að hætta jafnvel við þær fjárveitingar hlýtur að vera vísbending um að Evrópusambandið líti að minnsta kosti ekki svo á að það megi gera ráð fyrir áframhaldi viðræðna á næstunni.

Ef Evrópusambandið heldur sig við þá stefnu að það sé engin ástæða til að klára það sem lagt var af stað með hér er ekki hægt að túlka það öðruvísi en að Evrópusambandið telji ekki stefna í aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hvað varðar seinni hluta spurningar hv. þingmanns stendur að sjálfsögðu enn til að kynna á áætluðum tíma skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu Evrópusambandsins sjálfs og stöðu aðildarviðræðna. Þegar niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir munum við að sjálfsögðu taka það til umræðu hér í þinginu og ræða næstu skref.