143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

áframhald aðildarviðræðna við ESB.

[15:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það verður auðvitað að gera þá kröfu til ráðherra í hæstv. ríkisstjórn Íslands að þeir tali af meiri ábyrgð og meiri skýrleika um utanríkismálapólitík landsins en eins og þeir væru staddir á hárgreiðslustofu á Sauðárkróki. Það þarf að koma með skýr svör í þessum efnum. Það gengur ekki að halda því fram eftir þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur komið fram með síítrekað í þessu máli að nú allt í einu sé Evrópusambandið að slíta þessum viðræðum þannig að það sé búið að taka þá ákvörðun fyrir hönd okkar Íslendinga. Það er af og frá.

Þar að auki svaraði hæstv. forsætisráðherra ekki þeirri spurningu minni sem er mjög skýr: Er ekki ljóst að í kjölfar þeirrar skýrslu sem kemur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands verði ákveðið hvenær boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við Evrópusambandið fari fram?