143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

áframhald aðildarviðræðna við ESB.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það hljóta að felast í því skilaboð þegar Evrópusambandið ákveður að hverfa frá samningum, fyrirheitum, sem það hafði gert gagnvart Íslandi. Það hefur ekki fært fram önnur rök fyrir því en að það geri ekki ráð fyrir að Ísland sé að fara að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki túlkunaratriði, þetta eru þau skilaboð sem bárust Íslendingum frá Evrópusambandinu.

Svo ég ítreki svarið við seinni hluta spurningarinnar hljótum við bara að gera ráð fyrir opinni umræðu um stöðu þessara mála, eins opinni og hægt er að fara í þegar Evrópusambandið er búið að setja í þá stöðu sem er uppi núna þegar skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands liggur fyrir. Hagfræðistofnun mun auðvitað fara yfir þá stöðu sem upp er komin núna, enda mun hún skoða þetta ferli í heild sinni, en Hagfræðistofnun mun líka fjalla um hvernig Evrópusambandið sjálft hefur verið að þróast á undanförnum árum og það gefur okkur vonandi efni í góða og áhugaverða umræðu um stöðu og framhald Evrópusamvinnu almennt.