143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

kjarasamningar og gjaldskrárhækkanir.

[15:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann veit þó eins og ég að þær skattalækkanir sem fyrirhugaðar eru gagnast ekki því láglaunafólki sem ég er að tala um sem er á lægstu töxtunum, með innan við 200 þús. kr. Þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið að draga það til baka að lækka barnabætur og taki þær tekjur úr hinum vasa þess sama fólks í formi skerðingar vaxtabóta gagnast það ekki heldur þessu sama fólki. Þetta sama fólk þarf á stuðningi að halda og ríkið á að ganga fram með góðu fordæmi.

Ég vil nefna sem dæmi að misskiptingin er að aukast í þessu þjóðfélagi. Um næstu áramót geta forstjórar og framkvæmdastjórar N1 átt von á að fá að hámarki fjórföld mánaðarlaun í formi árangurstengdra bónusgreiðslna. Er það eðlilegt? Ég held að varúðarorð Seðlabankans eigi við um þessa hópa því að það virðist vera að fara af stað skriða bónusgreiðslna hjá þeim sem hafa það best. Ég spyr hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra aftur: Hvað um allt tal um þjóðarsátt, hvað er hún? Er hún bara í orði en ekki á borði?