143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún fór mjög vandlega yfir þá byggðastefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar hún talar um slæma byggðastefnu þar.

Hv. þingmaður talaði um jöfnun húshitunar og þær fyrirætlanir sem kynntar eru í breytingartillögunum frá meiri hluta fjárlaganefndar. Þær breytingartillögur eru dálítið sérstakar. Þar er reiknað með því að 304 millj. kr. innheimtist samkvæmt lögum sem ekki er búið að leggja fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að skynsamlegra væri að láta frumvarpið koma fram og taka um það rökræðu um hvernig er best að gera þetta, einkum í því ljósi að tillögurnar og fyrirhugað frumvarp brjóta pólitíska sátt og eru í andstöðu við pólitíska sátt sem náðist í starfshópi sem vann tillögur hvað þetta varðar. Hæstv. forseti Alþingis, sem þá var stjórnarandstöðuþingmaður, lagði fram frumvarp ásamt fulltrúum frá öðrum stjórnmálaflokkum í samræmi við það sem starfshópurinn lagði upp með, sem gekk út á það að gjaldið legðist á þá sem kaupa rafmagn en ekki bara á heimilin í landinu sem nýta sér dreifiveiturnar.