143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Já, þetta eru undarleg sinnaskipti en það eru auðvitað aðeins hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar sem geta farið yfir það með okkur hvað veldur sinnaskiputunum. Við þurfum að kalla eftir nánari svörum varðandi stefnubreytinguna sem er í þágu stóriðjunnar og á kostnað heimilanna í landinu.

Hv. þingmaður fór vel yfir sóknaráætlun landshluta og verðmæti hennar fyrir byggðirnar í landinu og eins fjallaði hún sérstaklega um brothættar byggðir. Aðeins er um að ræða 50 millj. kr. framlag til Byggðastofnunar en verkefnið er ákaflega vel upp byggt og er mikil ánægja með það. Þarna er verið að nálgast byggðamálin með öðrum og frumlegri hætti þannig að það er mjög undarlegt að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki halda þessum 50 millj. kr. inni vegna þess að það mundi skipta svo miklu máli fyrir þessar byggðir. Það eru fleiri byggðarlög en þessi fjögur sem hefðu gjarnan viljað vera í þessu prógrammi. Þessi fjögur byggðarlög voru ekkert endilega valin af því að þau stæðu verst heldur var ákveðinn fjölbreytileika að finna í lausnunum sem fram kæmu.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í hornsteina vænlegrar búsetu á hverjum einasta stað, sem eru heilbrigðismálin og menntamálin. Sér hv. þingmaður ekki vandamál í uppsiglingu þar vegna stöðu stofnananna víða um land? Staða þeirra er slæm, margar hverjar draga með sér halla yfir á árið 2014. Sér hv. þingmaður ekki einnig vandamál í uppsiglingu á þessum sviðum fyrir byggðirnar?