143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þetta sjónarmið með hv. þingmanni að það sem er að birtast hér og við erum að sjá, og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að verið er að fara mjög skart í að skera niður svokallaða fjárfestingaráætlun — ég er nú farin að segja „svokallaða“ af því að hún er alltaf kölluð „svokölluð“ í fjárlögunum. En fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar var ekkert gæluverkefni, hún var úthugsuð að því leyti að menn ætluðu að örva hér vöxt á ákveðnum sviðum, þar með talið t.d. Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, við skulum ekki gleyma honum. Það er ekki bara Tækniþróunarsjóður heldur er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða skorinn mjög hressilega niður, og það eru nú aldeilis fjármunir sem skila sér út á landsbyggðina, ekki síst til að byggja upp nýja ferðamannastaði þar, vegna þess að ágangurinn er svo mikill á þá staði sem eru hvað mest sóttir.

Hv. þingmaður kemur úr kjördæmi þar sem þó nokkuð af þeim fjármunum hefur farið inn og ef eitthvað er þá þyrfti að fara töluvert meira og kannski ekki síst til Vestfjarða þar sem þarf að byggja upp verulega betri aðstöðu víða. Það er því víða að þessu komið.

Það sem vekur mér ugg þegar ég les þessa grein um Rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, þá stendur það beinlínis að lækkunin sé vegna breyttrar forgangsröðunar útgjalda og hún feli í sér að verulega dragi úr umfangi sjóðsins. Með öðrum orðum, það er stefnubreyting, það er viðurkennd stefnubreyting af hálfu núverandi ríkisstjórnar að veikja samkeppnissjóði, að veikja sjóði eins og t.d. Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, að veikja þá sjóði sem ætlað er að styðja við uppbyggingu á þeim atvinnugreinum sem eru kannski nýrri í okkar efnahag en eru farnar að skipta okkur gríðarlegu máli og þar sem vaxtarsprotinn er. Það er það sem maður sér hér. (Forseti hringir.) Það er ekki eitthvað sem gerist óvart, það er markviss stefna.