143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún kom þar inn á verkefni græna hagkerfisins, og að það virtist vera að það hefði bara horfið út í himinhvolfið, þess fyndi hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu. Ég sé að hér er skrifað:

„Gerð er tillaga um að 86 millj. kr. fjárheimild liðarins falli niður varðandi atvinnuuppbyggingu og fjölgun vistvænna starfa.“

Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann til að upplýsa mig og aðra sem á okkur hlýða hvað það er sem þarna er á ferðinni, hvaða væntingar, hvaða umfang og gjaldeyrissköpun eru fólgin í því sem við köllum „græna hagkerfið“ og einnig hvaða hugsun. Það er ekki bara eitthvað sem er fínt á prenti að hafa lagt upp með Græna hagkerfið heldur viljum við sjá það til framtíðar að efnahagsvöxtur okkar byggist á því í heimi þar sem við höfum ekki óþrjótandi orku.

Svo vil ég aðeins nefna við hana að stjórnvöld hafa boðað afnám á orkuskatti og kolefnisgjöldum sem skila ríkissjóði nærri 6 millj. kr. á næsta ári. Telur hv. þingmaður að stjórnvöld séu alfarið búin að snúa baki við þeirri hugsun sem unnið hafði verið eftir að þeim þáttum sem snúa að græna hagkerfinu og umhverfisvernd og öllu sem því lýtur?