143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Mig langar aðeins að koma inn á vaxtabæturnar. Við þekkjum að ríkisstjórnin kastaði á milli sín þeim bolta hér á dögunum að hún ætlaði að lækka vaxtabætur, en sem betur fer dró hún í land með það. Ég held að það hafi nú verið mikið stjórnarandstöðunni að þakka að það var gert og vonandi einhverjum stjórnarliðum, að þeir hafi ekki viljað leggja út í þá vegferð.

En síðan er haldið áfram að skera niður vaxtabætur. Telur hv. þingmaður að hér sé jafnvel verið að hætta við að taka úr einum vasa en tekið í staðinn úr öðrum vasa? Þarf sá hópur sem þarna á í hlut ekki álíka mikið á þessum stuðningi að halda og þeir hópar sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með að styrkja með barnabótum og sérstökum vaxtabótum?