143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og fræðandi ræðu. Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér í gegnum það að læra allt þetta ferli hvernig fjárlögin virka í raun og veru og hvaða aðferðir geri það að verkum að staða ríkissjóðs batnar eða versnar. Það er kannski ekki endilega augljóst strax hvað virkar raunverulega. Vinstri maðurinn í mér og hægri maðurinn í mér hafa rifist mjög mikið upp á síðkastið og verið háværir hvor við annan frekar en hitt, en því meiri þörf finn ég til þess að koma hérna upp í pontu og spyrja fyrrverandi hæstv. ráðherra hvernig hlutirnir voru í fortíðinni og hvaða aðferðir virkuðu helst og hverjar ekki. Það þarf augljóslega að gera eitthvað meira en einfaldlega hækka eða lækka skatta eða einfaldlega hækka eða lækka útgjöld. Það þarf að hugsa svolítið strategískt. Það þarf að hugsa þetta þannig að útgjöldin skili helst einhverju til baka, ekki einungis í formi almennrar, segjum eflingar á heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu, sem er þó auðvitað líka langtímafjárfesting í eðli sínu, heldur kannski með beinum hætti í ríkissjóð.

Ég sé hérna að halli á ríkissjóði hefur minnkað ótrúlega mikið frá hruni og í raun og veru kemur verulega á óvart að sjá slíkan árangur miðað við það sem maður mundi halda að kæmi frá svokallaðri vinstri stjórn, hvað svo sem það á að þýða nákvæmlega á Íslandi. Spurning mín til hv. þingmanns er: Með hliðsjón af því að greinilegt er að hallinn er að minnka, hann minnkar frekar hratt, hvenær sá hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn fyrir sér að hallinn yrði enginn, þ.e. ef við miðum við forsendur á síðasta ári?

Svo hef ég líka sérstakan áhuga á að vita hvernig hugmyndin hafi verið rétt eftir hrun, því að þá leit ekki út fyrir að það væri hægt yfir höfuð.