143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og tek heils hugar undir þau sjónarmið sem hér voru borin á borð að með opnun fjármálanna og opnun ríkisbúskaparins sé auðveldara að hvetja til heilsteyptrar umræðu um málið. Sú umræða er óneitanlega af skornum skammti því að þrátt fyrir að þessar upplýsingar séu í raun allar opinberar er kannski ekki svo auðvelt að nýta þær. Ég vil því þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir starf sitt sem hæstv. ráðherra við að opna gögn og setja þau á netið og tek undir að ganga megi mun lengra í þeim efnum. Ég held að ekki sé hægt að ganga of langt þegar að því kemur og þá er mikið sagt fyrir mann eins og mig sem telur að allt geti gengið of langt, kannski með einstaka undantekningum.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái nánari útfærslur á því nákvæmlega hvað mætti opna, eitthvert heilræði til nýrrar hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum.