143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, kannski tókum við fyrstu skrefin síðastliðið vor áður en fráfarandi ríkisstjórn fór frá. Ég vona að núverandi ríkisstjórn, og ég held að þau hafi áhuga á þessu, haldi áfram með þetta verkefni vegna þess að það skiptir máli fyrir okkur öll.

Ég er í raun og veru eins og hv. þingmaður, ég sé engar sérstakar takmarkanir á þessu. Menn þurfa auðvitað að skoða persónugreinanlegar upplýsingar og annað slíkt en innan þess ramma sem eðlilegur getur talist hvað það varðar tel ég að ríkið eigi að ganga eins langt og hægt er. Við eyðum töluverðum tíma og menn eyða töluverðum tíma í ráðuneytunum við að safna saman upplýsingum um hvernig til dæmis svokölluðu skúffufé ráðherra er ráðstafað, hversu margir fá verktakagreiðslur frá ráðuneytunum o.s.frv. Af hverju ekki að einfalda okkur öllum lífið og hafa þetta opið? Þá geta menn sótt upplýsingarnar og það þarf til dæmis ekki að fara heill dagur (Forseti hringir.) eins starfsmanns í að taka þær saman?