143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann talaði um Vinnumálastofnun og þann vanda sem þar blasir við ef niðurskurðartillögurnar ná fram að ganga þar sem ekki er talið að stofnunin muni geta sinnt hlutverki sínu hvað varðar ráðgjöf til atvinnuleitenda og miðlun atvinnu. Enn eru um 7.000 einstaklingar atvinnulausir og ég spyr hv. þingmann, þegar hann skoðar anda fjárlagafrumvarpsins og þær tillögur sem þar eru, hvort hann telji ekki að fleiri verði einmitt atvinnulausir fyrir niðurskurð á stofnunum og líka fyrir þá atvinnustefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu því að þar er harkalega skorið niður. Samkeppnissjóðirnir eru skornir niður, Tækniþróunarsjóður og Rannsóknasjóður. Stuðningur við rannsóknir og þróun í atvinnulífinu er skertur, samdráttur er í stuðningi við vaxtarbroddinn skapandi greinar, sjóður til fjárfestingar í uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða er skorinn niður, sóknaráætlunin er skorin niður að mjög miklu leyti og þannig mætti áfram telja. Afnám Fjárfestingarsjóðs til að efla fjárfestingar í fyrirtækjunum á sviði umhverfislausna — og menn hafa, og meðal annars Samtök iðnaðarins, bent á að bara með styrkjum úr Tækniþróunarsjóði komi til baka tugir milljarða sem síðan megi nýta til að fjölga störfum. Ég spyr hv. þingmann um afleiðingar slíkrar stefnu.