143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek eindregið undir með hv. þingmanni, það er engin ástæða fyrir okkur til að fara heim fyrir jól fyrr en búið er að tryggja að atvinnuleitendur fái þann jólabónus sem þeir hafa fengið undanfarin ár. En það er annað atriði sem ekki er hægt að skilja við hér með góðu móti, það eru þessir nýju sjúklingaskattar, skattar sem við, ég og hv. þingmaður, ræddum hér á laugardaginn um hvernig væri eiginlega fyrirhugað að leggja á, því að þessa skatta á að leggja á þá sem eru lagðir inn á sjúkrahús.

Eins og við vitum eru nú ekki allir sem lagðir eru inn á sjúkrahús í aðstöðu til þess að svara því hvort þeir vilji greiða einhvern tiltekinn reikning eða ekki. Ég spurði þá hv. þingmann hvort þetta ætti að leggja á þá sem leggjast t.d. inn á gjörgæsluna. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann hafi komist eitthvað nánar að því með hvaða hætti eigi að gera þetta og upplýsa hann um að samkvæmt mínum heimildum hér úr einhverju nefndarstarfi í kringum málið þá þyrfti að leggja 6.700 kr. á hvern sjúkling ef leggja ætti skatt á alla þá sem innlagðir eru.

Þá er þess að gæta að auðvitað er ekki hægt að leggja þetta á alla vegna þess að sumir eru bara ekki í aðstöðu til þess að samþykkja slíka gjaldtöku við innlögn. Þá er þess að gæta að talsvert af kröfunum tapast og í þriðja lagi er yfir helmingurinn af þeim sem þá þyrftu að greiða þetta börn eða lífeyrisþegar, sem ég geng bara út frá að verði undanþegin svona gjaldi. Miðað við þessar tölur virðist mér að menn þyrftu að leggja kannski 15–20 þús. kr. á sjúkling sem leggja ætti inn — nema menn ætli líka að fara að rukka ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og börn um þessa nýju sjúklingaskatta.

Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hvort hann hafi heyrt eitthvað um upphæðir í þessu því að það hefur því miður ekki verið upplýst í þingsal. Ef það er ekki, hvað hann segi um þessar upphæðir, að fjársjúkt fólk sem verið er að leggja inn þurfi að borga kannski 15–20 þús. kr. fyrir að fá að koma inn á spítala.