143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að eitt mikilvægasta verkefni okkar fyrir framtíðina sé að bæta fæðingarorlofið. Talandi um samráð þá þarf að vera samráð milli ríkis og sveitarfélaga um fjárframlög til foreldra annars vegar og aðstöðu sem boðið er upp á eða öllu heldur leikskóla fyrir börnin hins vegar, þannig að við tryggjum þeim samveru með foreldrum sínum og foreldrunum jafnhliða traustan fjárhagsgrundvöll. Það er mjög alvarlegt þegar verið er að kroppa í fæðingarorlofið eins og gert er núna. Við höfum lagt mjög ríka áherslu á að staðinn verði vörður um fæðingarorlofið.

Ég held að lykillinn að því sem hv. þingmaður nefnir sé einmitt þessi: Samráð. Það er það sem kannski skortir helst þegar kemur að starfsendurhæfingarsjóðnum, svo virðist sem þessi mál hafi ekki verið rædd. Reyndar er það svo með starfsendurhæfinguna að í samkomulaginu sem upphaflega var gert um það efni er kveðið á um að meta skuli árangurinn af starfinu þannig að aðilar setjist saman yfir það og meti árangurinn af starfsendurhæfingunni og endurmeti hugsanlega fjárframlagið sem á að renna þangað. Það er þetta sem hefur skort á, það hefur ekki verið efnt til slíkrar samræðu eftir því sem ég fæ best vitað.