143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna, um hvar á ásnum þessi pólitík sé. Hvað varðar skattþrepið sérstaklega, miðþrepið á tekjuskattinum, þótti mér alltaf svolítið sérstakt að það væri á miðþrepinu en ekki alla vega á lægsta þrepinu vegna þess að það er svona hefðbundin hægri skattalækkun innan gæsalappa og það væri eitthvað sem ríkisstjórnin gæti þá kannski stært sig af en getur það eiginlega ekki því að hún varðar bara milli- og efri tekjur, sem mér finnst mjög skrýtið persónulega.

Sömuleiðis fer hv. þingmaður réttilega inn á það, ég meina, getum við ekki kallað þetta skattlagningu, þær aðgerðir sem varða heilbrigðiskerfið? Vegna þess að auðvitað þurfa þessir peningar einhvers staðar að koma. Og þá er spurningin: Hvern eigum við að skattleggja? Er það ekki þannig að sjúklingar taka þátt í markaðnum? Þurfa ekki sjúklingar líka að versla inn hitt og þetta? Er þá ekki mikilvægt að lækka skatta eða gjöld á þá sama hvort það eru gjöld fyrir það að fá tekjur eða gjöld fyrir það leggjast inn á sjúkrahús? Lendir það ekki á sama stað hagfræðilega? Ég hefði haldið það. Þess vegna skil ég ekki alltaf alveg þessa lógík hjá svokölluðum hægri mönnum að lækka skatta eins og það séu trúarbrögð frekar en spurning um hvað sé skynsamlegast.

Hv. þingmaður spurði mig um afstöðu mína gagnvart þessum gjöldum, ég á móti þeim og vil segja hvers vegna. Það er vegna þess að ég hélt í barnaskap mínum að það væri komið á hreint að við vildum hafa sterkt miðlægt heilbrigðiskerfi. Ef ég spyr menn úti í bæ: Hvers vegna erum við með ríki umfram það sem Bandaríkjastjórn er með? Þá segja þeir: Vegna þess að ég vil hafa almennilegt heilbrigðiskerfi.

Mér finnst það algjörlega skýrt að þjóðin lítur á það sem algjört forgangsatriði þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs að heilbrigðiskerfið sé í góðu lagi. Þess vegna furða ég mig á því í raun og veru að gengið sé svona langt. Ég hef ekki meiri tíma en held kannski áfram í seinna andsvari.