143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið athygliverð umræða. Ég heyrði ávæning af ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur — þrátt fyrir annir okkar í allsherjar- og menntamálanefnd rétt náðum við í skottið á umræðunni hér — þar sem þingmaðurinn lýsti áhyggjum sínum af því að fjárlagavinnan gengi hægt fyrir sig. En meðan fjárlögin eru í umræðu í þingsal er ekki hægt að vinna með þau í fjárlaganefnd. Það gefur augaleið. Ég mæli með því að menn skoði nú hvort ekki sé rétt að fara að greiða atkvæði um þetta ágæta frumvarp til að koma því til fjárlaganefndar að nýju milli umræðna eins og mér skilst að til standi að gera.

Þá langar mig að vekja athygli þingheims á einni ágætri breytingartillögu sem liggur fyrir í fjárlagaumræðunni er varðar öldrunarstofnanir. Við þekkjum það að á undanförnum árum hefur skapast mikill vandi á sjúkrahúsum landsins vegna þess að ekki er nægilegur fjöldi hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum í landinu til að taka á móti þeim hjúkrunarsjúklingum sem hafa fengið þar til gert mat um að þeir geti tekið sér búsetu á hjúkrunarheimilum. Nú liggur hér fyrir breytingartillaga um að með tímabundnum hætti verði brugðist við þessum vanda með fjármögnun á hjúkrunarrýmum, hvíldarinnlagnarrýmum, í einstaka sveitarfélögum á landsbyggðinni þar sem biðlistar eru langir. Hugmyndin er að nýta laust húsnæði á þessum stofnunum sem þegar eru í rekstri, breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými þar sem það á við. Á meðan vinnur ráðuneytið tillögur um það hvernig megi bregðast við þessum vanda varanlega. Sú áætlun mun líta dagsins ljós og ég hlakka til þeirrar vinnu og tel að þetta sé ein (Forseti hringir.) mikilvægasta tillagan sem við munum ræða í tengslum við fjárlagagerðina.