143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Sem betur fer er farið að nálgast jól og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er greinilega kominn hér í hátíðarskap og heldur því til haga að öll vinnubrögð hafi verið handarbakavinnubrögð þangað til Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tóku við. Þá hafi fólk byrjað að halda eðlilega og vel utan um mál. Það er náttúrlega algjörlega með ólíkindum að halda slíku fram. Það eru velmeinandi og góðir og yfirvegaðir þingmenn hér sem hafa orð á því að fjárlagafrumvarpið sjálft sem var lagt fram á sérstökum fresti fyrir hæstv. ríkisstjórn 1. október, á sérstökum fresti af því að það þurfti svo mikinn tíma, hafi verið svo illa unnið og óljóst að það var ekki nokkru lagi líkt. Síðan tekur hæstv. meiri hluti til við að breyta frumvarpinu og allt í anda þingræðisins eins og hv. þingmaður nefnir hér, en það er iðulega með viðtölum við ráðherra, aðskiljanlegustu þingmenn o.s.frv. í ýmsum fjölmiðlum landsins. (VigH: Já!) Og það hefur verið verulega krefjandi verkefni fyrir þingmenn í stjórnarandstöðunni að fylgjast með því hvernig fjárlagavinnunni hefur undið fram, ekki bara í fjárlaganefnd sem hefur sannarlega verið fróðlegt, heldur ekki síður í fjölmiðlum þar sem tillögur hafa komið og tillögur hafa farið og það hafa verið sveiflur inn og út um gluggann og alltaf sömu leið hjá hv. meiri hluta. Af því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talar um ófjármagnaðar tillögur stjórnarandstöðunnar get ég svarað fyrir þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, við erum með fullfjármagnaðar tillögur sem snúast um að hverfa frá þeirri pólitík hæstv. ríkisstjórnar sem snýst um að afsala sér tekjum hér í stórum stíl. (Gripið fram í.) Það sem hv. þingmaður kallar að skattleggja venjulegt fólk er að skattleggja útgerðina (Forseti hringir.) sem á nóg til. (Gripið fram í.)