143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er nú ekki annað en sjálfsagt að taka undir þær góðu kveðjur til hæstv. forseta sem fram komu hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og þakkir fyrir stjórn fundarins hér á þessum morgni. Það er fagnaðarefni að komast loksins að í fjárlagaumræðunni og ástæða til þess að þakka fyrir þá vinnu sem við erum með á borðinu, fjárlagafrumvarpið til 2. umr., hinnar eiginlegu efnislegu umræðu. Það er höfuðumfjöllun okkar á ári hverju í þinginu þar sem línur eru lagðar í öllum ríkisrekstrinum, bæði á tekjuhliðinni og á gjaldahliðinni og auðvitað er eðlilegt að þar komi menn víða við. Eru þar mörg álitaefni sem við þingmenn þurfum að taka á og takast þar á um sömuleiðis.

Það er við hæfi að þakka hv. fjárlaganefnd, fulltrúum úr henni og forustu nefndarinnar fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt að baki. Við þekkjum það hér í þinginu að á hausti hverju eru gríðarlegar annir í fjárlaganefndinni, bæði miklar gestakomur og eins mikið af málsskjölum og upplýsingum sem nefndin þarf að vinna úr. Ekki hefur bætt úr skák þetta árið hversu seint fjöldamörg þingmál eru fram komin sem tengjast fjárlögunum og hversu miklar breytingar hefur þurft að gera á þeim og þarf enn að gera á þeim. Nú er m.a. boðað að gerðar verði breytingar upp á 20 milljarða kr. í einfaldri breytingartillögu, væntanlega á milli 2. og 3. umr., án þess að mikil færi gefist á því að hafa um þær efnislega umfjöllun eða að gera neina könnun á þeim, hvort heldur er þeim tekjuöflunartillögum sem þar eru eða gjaldatillögum, og auðvitað er það til vansa að svona sé málum komið.

Því er ekki að leyna að eftir hrunið varð hér oft og tíðum að grípa til ráðstafana í ríkisfjármálum með fremur skömmum fyrirvara, gera miklar ráðstafanir til þess að afla nýrra tekna og ráðast í víðtækan og viðamikinn niðurskurð. Sem betur fer erum við komin þangað í ríkisfjármálunum að við höfum náð frumjöfnuði og það stefnir í að við náum heildarjöfnuði. Það eru liðin fimm ár frá efnahagshruninu og orðið tímabært að gera þá kröfu til framkvæmdarvaldsins að það komi með fjárlög og fjárlagatengd mál inn í þingið á þeim tímum sem til er ætlast lögum samkvæmt.

Veittur var sérstakur frestur til þess að leggja fjárlagafrumvarpið fram. Það kom ekki fram í september, eins og lagaáskilnaðurinn er um, heldur í byrjun október. En það sem var kannski verra var að það hafði vart verið lagt fram hér í þinginu þegar ríkisstjórnarforustan, sem lagði málið þó fram, hljóp sjálf frá því og gaf út um það yfirlýsingar að það væri svo illa úr garði gert af hendi hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar og ríkisstjórnarinnar — sem leggur auðvitað fram málið í heild sinni því að það er stjórnarfrumvarp, mál nr. 1 á yfirstandandi þingi — að það væri svo illa úr garði gert að fjárlaganefndin og þingið hefðu ekki bara fullt umboð heldur beinlínis hvatningu frá ríkisstjórninni til þess að reyna að bæta úr þeim alvarlegu ágöllum sem voru á málinu.

Það er auðvitað enginn umbúnaður um mál nr. 1 á þingi hvers árs, fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár, að það sé svo illa úr garði gert að flutningsmennirnir lýsi því sérstaklega yfir þegar þeir leggja það fram að á því séu stórir og miklir gallar sem þingið verði taka á. Það gerir það líka að verkum að gallarnir, sem voru á hinu upphaflega frumvarpi og voru yfirlýstir af hálfu ríkisstjórnarinnar, og hversu seint ýmis tengd mál komu inn í þingið og annað með öðru, kalla á býsna vandaða umfjöllun í þinginu, bæði í fjárlaganefndinni — og það er því miður ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að þar hafi málið kannski ekki verið rýnt nægilega — og auðvitað líka hér í þingsalnum. Fjárlagaumræðan hófst í rauninni undir fyrri dagskrárliðnum, sem voru störf þingsins, og er það í sjálfu sér ekki óeðlilegt því að störf þingsins þessa dagana snúast auðvitað að verulegu leyti um fjárlögin, um fjáraukalögin og þau mál sem þeim tengjast. Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur sem vakti athygli á því að í þessari umræðu, þó að hún sé farin að taka nokkra daga, sé allt of lítið um skoðanaskipti. Ég er sammála þingmanninum um það. Stjórn og stjórnarandstaða eiga auðvitað að skiptast á skoðunum í umfjöllun um fjárlög, því að það er alrangt sem fram kom í máli varaformanns virðulegrar fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, undir sama dagskrárlið fyrr á fundinum, störfum þingsins, að hér sé þingið í fyrsta sinn að gera einhverjar breytingar á fjárlagafrumvarpi. Það er auðvitað fjarri öllu lagi og hv. þingmaður veit miklu betur. Þess vegna talar hann í ræðustól Alþingis beinlínis gegn betri vitund, einkum og sér í lagi þegar hann fjallar um síðasta kjörtímabil og hvernig fyrri meiri hluti Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafi farið með ríkisfjármál. Hann heldur því t.d. fram að þingið hafi á því kjörtímabili verið notað sem einhver afgreiðslustofnun eða stimpilpúði. Það er fjarri öllu lagi.

Auðvitað voru margvíslegar breytingar gerðar á málum í hv. fjárlaganefnd og sömuleiðis í efnahags- og viðskiptanefnd og áður efnahags- og skattanefnd, þar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson átti einmitt sæti undir formennsku minni. Hann var viðstaddur og tók þátt í afgreiðslu mála þar sem umtalsverðar breytingar voru gerðar á framkomnum stjórnarfrumvörpum sem tengdust fjárlögum. Auðvitað var reynt að gera það í sem víðtækastri sátt, það var ekki gert vegna þess að málin væru svo meingölluð, en til að nefna ágætisdæmi þá fundum við færi á síðasta vetri á því að halda nokkrum skatttekjum af kröfuhöfum, sem kallaðir eru, þ.e. erlendum eigendum verðbréfa á Íslandi, og vaxtatekjum þeim sem þeir tóku úr landi, og gerðum ráðstafanir til þess að nýta þá tekjuöflun til að falla frá þeim verðlagshækkunum sem fyrirhugaðar voru á ýmsa þætti í fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár, 2013, sem hefðu haft nokkur áhrif á verðbólgu og þar með á verðtryggð lán heimilanna. Það er bara eitt af fjölmörgum góðum dæmum um breytingar sem gerðar voru á málum tengdum fjárlögum hér á liðnu kjörtímabili í þinginu.

En það var ekki bara þannig, einnig voru gerðar breytingar á fjárlögum til þess að koma til móts við sjónarmið fulltrúa minni hlutans. Hér áttu meiri og minni hluti í löngum samræðum um gjöld og skatta og hversu há gjöld og skattar mættu vera eða ættu að vera og gerðu breytingar á þeim tillögum sem fram voru komnar, ekki bara til að koma til móts við sjónarmið þingmanna úr stjórnarmeirihlutanum heldur líka gagngert til þess að koma til móts við sjónarmið þingmanna úr minni hlutanum. Þannig á það einmitt að vera hér í þjóðþinginu. Eins og hv. Vilhjálmur Árnason nefndi undir þessum sama dagskrárlið, störfum þingsins, í upphafi, þurfum við að hlýða á sjónarmið hver annars, vega þau og meta og taka tillit til þeirra eftir atvikum, gera breytingar og laga þá augljósu agnúa sem minni hlutinn á hverjum tíma er sem betur fer alltaf í færum til að benda á. Það er auðvitað þannig um öll fjárlagafrumvörp að þau má bæta. Það má gera betur og á þeim eru ágallar sem mikilvægt er að bæta úr.

Ég hygg að það hafi verið hæstv. menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sem hafði tillögu um þetta efni á liðnu kjörtímabili, þ.e. umræðuna hér í þingsalnum um fjárlögin. Það er kannski sprottið af svipuðum sjónarmiðum og ég vitnaði til hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar. Það voru tillögur sem lutu að því hvort ekki mætti auka skoðanaskiptin og gagnvirkni í umræðunni í þinginu um fjárlögin, kannski með svipuðum hætti og menn voru að reyna þegar þeir innleiddu andsvörin í þingsköpin, sem var mikil framför frá því þegar hér voru einvörðungu haldnar langar ræður meira eða minna og menn komust ekki endilega á mælendaskrá strax á eftir þeim ræðumanni sem þeir vildu bregðast við og kannski var þá farið að fenna í umræðuna þegar menn komust loksins að með andmæli sín.

Tillaga hæstv. menntamálaráðherra laut að því — ég held að ég fari örugglega rétt með í meginatriðum þó að ég fari nú með hana hér eftir minni af því hún rifjaðist upp undir orðum hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur — að hér í þingsalnum þyrfti að gera breytingar líkt og búið er að gera nýlega í norska Stórþinginu þar sem þingmenn gætu tekið þátt í umræðunni úr sætum sínum. Það er þekkt í fjölda þjóðþinga. Þá er einfaldlega hljóðnemi við hvert og eitt sæti í salnum og forseti getur gefið þingmönnum orðið í sæti sínu, þeir geta komið með stutt innlegg eða spurningar og ræðumaður getur þess vegna staðið hér í ræðustólnum og brugðist við því sem þingmenn hafa fram að færa. Þannig geta orðið lifandi skoðanaskipti, samræður manna í salnum. Muni ég tillögur hæstv. menntamálaráðherra rétt lutu þær að því að hér ætti hver fagráðherra að vera til svara um og fyrir sinn málaflokk, þannig að t.d. hæstv. menntamálaráðherra kæmi hér í þingið, sæti hér fyrir svörum og allir þingmenn úr öllum flokkum gætu beint til hans spurningum eða sett fram gagnrýni eða lýst sjónarmiðum eða sett fram hugmyndir og fengið viðbrögð ráðherrans við þeim. Færi nú vel á því þar sem hv. þingmaður gegnir nú því embætti.

Ég held að þetta hafi að mörgu leyti verið ákaflega góð hugmynd og hana ætti að skoða, sérstaklega í tengslum við endurskoðun á þingsköpunum. Ég held líka að það sé löngu tímabært að við könnum það hér í þinginu hvort við getum ekki komið okkur upp aðstöðu sem þessari þannig að við getum átt orðastað við þingmenn eða ráðherra úr sætum okkar ef við viljum aðeins hafa stutt innlegg, koma á framfæri einni setningu eða einni spurningu eða öðru slíku sem kallar ekki á það að einn þingmaður yfirgefi ræðustólinn og annar sé kynntur í hann og gangi í hann o.s.frv. Það verða miklu líflegri skoðanaskipti og vegna þess að tilgangur skoðanaskiptanna er jú að finna hinar bestu hugmyndir og láta hinar vondu hugmyndir ydda hinar betri, þá er mikill ávinningur í því ef það getur orðið samræða á milli stjórnarmeirihlutans og þingsins alls um fjárlagafrumvarpið, ekki bara stóru línurnar, eins og við höfum nú sem betur fer þegar hæstv. fjármálaráðherra mælir fyrir málinu, heldur líka í hverjum og einum málaflokki. Í fjárlagaumræðunni verða því miður allt of oft undir stórir málaflokkar, stór málasvið. Heilbrigðismál geta verið meira og minna vanrækt í gegnum heila fjárlagaumræðu eða jafnvel málaflokkur eins og menntamálin og við það getum við auðvitað ekki búið.

Það er líka óheppilegt að þegar umræðan fer fram eru ráðherrabekkirnir auðir eins og er hér í dag við 2. umr. fjárlaga, megin efnisumræðu fjárlaga, þá er ráðherrabekkurinn bara auður. Ég gæti auðvitað farið að kalla hér á virðulegan forseta og óskað eftir því að ráðherrar væru viðstaddir umræðuna eins og hér var löngum siður og þeir lögðu jafnan áherslu á, fjárlaganefndin lagði raunar mikla áherslu á það, en viðvera ráðherra virðist satt að segja bara vera alveg afleit. Það er að ýmsu leyti skiljanlegt út frá ábendingum frá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur að skoðanaskiptin eru ekki sérlega gagnvirk eða bein og tækifæri manna til þess að koma að sjónarmiðum í umræðunni eru býsna einhæf. Það er vont fyrir umræðuna ef þingmaður er á mælendaskrá og vill ræða mikilvæg atriði sem varða til að mynda samgöngumál í landinu að þá sé innanríkisráðherrann bara ekki á staðnum, ekki viðstaddur til þess að hlusta á sjónarmið hans eða til þess að bregðast við spurningum hans og heyra nýjar hugmyndir.

Þess vegna held ég að það væri öllum fyrir bestu að við reyndum að endurskipuleggja umræðuna þannig að fram fari umræða um hvern og einn málaflokk þannig að við getum bara sett samgöngumálin á dagskrá á tilteknum þingfundi yfir tiltekinn tíma. Þá er ráðherrann hér, þá koma þeir þingmenn í þingsalinn sem vilja ræða þann málaflokk og geta beint hlutum beint til ráðherrans og fengið fram afstöðu, þó að það væri ekki annað en að hann segði bara nei, legðist gegn þeim hugmyndum sem þingmaðurinn vildi færa fram. Þá er það alla vega svar, það er þó alla vega umræða þar sem fólk talast við en ekki þetta form sem ég held að hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir og hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson, þá sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, og svo margir aðrir hafa gert.

Hér hefur verið skipuð þingskapanefnd til þess að endurskoða þingsköpin og ég vil nota tækifærið vegna þess að það er einmitt sjálfur forseti Alþingis sem situr á forsetastóli, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, og beina því sérstaklega til hans, enda veitir hann þingskapanefndinni formennsku, að þessi þáttur verði tekinn til gaumgæfilegrar umfjöllunar í þingskapanefndinni og að þessu verði breytt. Það fer ekki vel á því að minni hlutinn sjái meira eða minna um fjárlagaumræðuna á Alþingi. Ég þekki ekki til í neinu þjóðþingi þar sem því er þannig háttað. Það er ákveðinn vitnisburður og satt að segja dapurlegur vitnisburður að nú sé svo komið að ráðherrar einstakra málaflokka sjái bara enga ástæðu til þess að vera við fjárlagaumræðuna hér í þinginu. Þá er málum þannig komið að við þurfum eitthvað að fara að endurskoða hlutina.

Að efni máls, að fjárlögunum sjálfum. Vegna þess að við erum nú að nálgast þann dag í dagatalinu sem skemmstur er og skammdegið hvað mest og maður verður óneitanlega var við það úti í samfélaginu að fjölmargir hafa áhyggjur, áhyggjur af morgundeginum, áhyggjur af stöðu þjóðarbúsins og því hvort hér stefni allt í óefni, þá er full ástæða til þess að undirstrika það að fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014, þó að það hafi komið seint fram og að á því hafi verið alvarlegir ágallar, fyrir okkur Íslendinga alla verulegt fagnaðarefni. Það er í raun og veru alveg ótrúlegt að aðeins fimm árum eftir að efnahagslífið hér hrundi séum við búin að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Það er árangur sem við eigum öll að gleðjast yfir og það er árangur sem menn taka eftir hvarvetna, því að er leitun að þjóð sem sýnir þann aga, það harðfylgi i ríkisfjármálum að snúa við hallarekstri sem nam nærri 15% af landsframleiðslunni — 15% af landsframleiðslunni — í það að vera með hallalaus fjárlög á svona skömmum tíma.

Fyrir fimm árum síðan var það þannig hér að önnur hver króna sem greidd var út úr ríkissjóði var mínus. Hún var tekin að láni vegna þess að tekjurnar dugðu bara fyrir helmingi útgjaldanna. Skuldirnar sem hér hlóðust upp voru hátt í 1 milljarður kr. á hverjum virkum degi og hver milljarður byrjaði óðara að safna vaxtakostnaði, ekki síst fyrir komandi kynslóðir. Að við höfum náð landi í þessu er auðvitað grunnurinn að þeirri uppbyggingu sem nú er hafin og í hönd fer vegna þess að afkoma ríkissjóðs er grundvöllurinn að öllu öðru í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Að ríkissjóður sé rekinn með afgangi, að við séum að greiða niður skuldir hjálpar til við að endurreisa trúverðugleika efnahagslífsins og bæta lánskjör, ekki bara ríkissjóðs heldur allra á Íslandi, vegna þess að lánskjör ríkissjóðs leggja grunninn að lánskjörum allra annarra á Íslandi. Þeim mun betri sem lánskjör ríkisins eru þeim mun hagstæðari lán fá menn til þess að ráðast í fjárfestingar á Íslandi. Þeim mun líklegra er að verkefni séu arðsöm eftir því sem vextirnir eru lægri. Bara með því að ná árangri í ríkisfjármálum aukum við verulega líkurnar á því að fjárfesting fari hér í gang.

Fjárfestingin er eitt af þeim áhyggjuefnum sem maður hefur þó um fjárlög komandi árs, því að viðsnúningurinn sem náð var samanstendur í raun af þrennu: Í fyrsta lagi lagði fyrri ríkisstjórn á ýmis ný gjöld og skatta, einkum á stóreignafólk, eins og auðlegðarskattinn sem verður að bera ákveðnar byrðar tímabundið á meðan við erum að komast í gegnum erfiðleikana, síðan á auðlindirnar í formi veiðigjalda og annarra slíkra gjalda, eins með því að skera niður útgjöld og voru vissulega margar sársaukafullar aðgerðir sem fara þurfti í þar, en síðast en ekki síst með því að ná hér hagvexti ár eftir ár, vegna þess að hagvöxturinn eykur jú tekjur ríkissjóðs. Og það sem gerir það að verkum að nú er mögulegt að leggja fram hallalaus fjárlög fyrir næsta ár er sá góði hagvöxtur sem hefur verið hér á fyrstu níu mánuðum þessa árs, hann verður til þess að tekjur ríkissjóðs á komandi ári verða þeim mun meiri.

Það er einmitt þetta sem maður hefur nokkrar áhyggjur af vegna þess að annars vegar eru stórfjárfestingar, sem gert hefur verið ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlunum, ekki á dagskrá að óbreyttu. Það kom hér fram meðan fjárlagafrumvarpið var til meðhöndlunar í þinginu að ekki er fyrirhugað að ráðast í byggingu álvers í Helguvík að óbreyttu vegna þess að verkefnið er einfaldlega ekki nægilega arðsamt. Þá er ljóst að ákveðnar væntingar um vöxt og atvinnusköpun út úr þeim verkefnum eru ekki fyrir hendi.

Þá horfir maður til þess að samneyslan, þ.e. fjárlagafrumvarpið sjálft, leggur heldur ekki neitt til vaxtar á komandi ári. Og það sem mér finnst einkennast af mestri skammsýni í þeim tillögum sem hér eru uppi fyrir komandi ár er að ný ríkisstjórn hefur því miður strikað út fjölmörg verkefni sem tengdust rannsóknum, nýsköpun, þróun, til að mynda græna hagkerfinu, sem er sá þáttur efnahagslífsins sem vex hraðast í heiminum, þar sem mest er fjárfest í heiminum, þar sem flest störf skapast í heiminum í dag, þannig að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að við fáum ekki heldur vöxtinn þaðan. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvaðan stjórnarmeirihlutinn sjái fyrir sér að fá vöxt í efnahagsstarfsemina á næsta ári eða hvort fyrirhugað sé að byggja hann einvörðungu á einkaneyslu með verulegum aðgerðum því tengdum, sem er hætta á að leiði til enn frekari skuldsetningar í landinu. Það getur í framhaldinu orðið dragbítur á frekari vöxt. Við þurfum uppbyggingu í atvinnulífinu til þess að halda áfram að vaxa og halda áfram að ná árangri og bæta þann góða árangur sem við þegar höfum náð. Þó að við höfum náð núllinu eru skuldir ríkissjóðs eftir sem áður umtalsverðar og er mikilvægt að við náum sem allra fyrst að vinna þær nokkuð niður því að þær eru langt yfir þeim almennu viðmiðum sem við höfum um eðlilega skuldsetningu ríkissjóðs.

Þess vegna hefur það verið áhyggjuefni núna á síðustu mánuðum að stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin virðast halda að hún taki við miklu betra búi en við skiluðum sem stóðum vaktina á síðasta kjörtímabili. Ég vil biðja stjórnarþingmenn um að ganga hægt um gleðinnar dyr í því sambandi, því að það var óráð að fara beint í það eftir kosningar að afsala ríkissjóði verulegum tekjum, að afsala ríkissjóði tekjum af erlendum ferðamönnum. Það er einhver sérkennilegasta ákvörðunin sem hér var tekin á síðustu mánuðum, einkum og sér í lagi þegar sömu stjórnarþingmenn lögðu til gistináttagjald á inniliggjandi fársjúkt fólk á spítölum á sama tíma og þeir töldu sig hafa efni á því að falla frá gjaldtöku af erlendum ferðamönnum hér í landinu.

Það var líka óráð að lýsa því yfir að auðlegðarskatturinn yrði ekki framlengdur, vegna þess að auðlegðarskatturinn er tímabundin aðgerð, einkanlega þegar hann er jafnhár og hann er, hann skilar ríkissjóði einum 10 milljörðum í tekjur. En það var yfirlýst þegar hann var settur á að hann tengdist því neyðarástandi sem hér væri í efnahagsmálum. Og hvað lýsir þessu neyðarástandi? Gjaldeyrishöftin sem eru í landinu. Það eru lög sem hafa verið sett af Alþingi Íslendinga sem banna útlendingum að fara með peningana sína úr landi og banna Íslendingum að fara með gjaldeyri sem þeir kunna að eiga úr landinu. Hvers vegna er það? Það er af þeirri einföldu ástæðu að við höfum ekki efni á því að láta þetta fólk hafa peningana sem það á á Íslandi, við eigum bara ekki fyrir því. Við erum ekki borgunarmenn fyrir skuldum okkar, það er það sem gjaldeyrishöft þýða. Við getum ekki reitt það fram í erlendum gjaldeyri sem aðrir aðilar eiga af kröfum á okkur. Það er auðvitað neyðarástand.

Það er óráð að létta af 10 milljarða auðlegðarskatti áður en menn hafa brotist út úr gjaldeyrishöftunum, það er beinlínis óráðlegt. Það er líka óráðlegt fyrir þá auðmenn sem greiða þennan skatt vegna þess að það er nú kannski ekki hvað síst þeirra hagsmunamál að við brjótumst út úr þessum gjaldeyrishöftum. Ef við gerum það ekki þá er það bara ávísun á það að hagkerfið morkni smátt og smátt innan frá og að þau verðmæti sem þetta eignafólk á verði að frekar litlu.

Þetta voru ekki einu tekjurnar sem stjórnarmeirihlutinn ákvað strax að falla frá. Það var líka ákveðið að falla frá sérstaka veiðigjaldinu. Menn geta haft sínar skoðanir á því hvernig það var útfært eða að það hefði mátt útfæra það öðruvísi eða gera það með einhverjum hætti öðrum en síðasti stjórnarmeirihluti gerði, það er auðvitað bara alveg sjálfsagt. Það hefði mátt leggjast minna á minni útgerðir eða meira á stórar útgerðir o.s.frv. Það var ekkert því til fyrirstöðu að menn geri það. En að stjórnarmeirihlutinn skyldi afsala sér 10 milljarða tekjum við þessar breytingar var líka mjög óráðlegt. Við sjáum afleiðingarnar af þessum ákvörðunum speglast í fjárlagafrumvarpinu fyrir komandi ár vegna þess að ef stjórnarmeirihlutinn hefði ekki fallið frá þessari tekjuöflun, sem sjálfsagt var að halda áfram, þá hefði ekkert þurft að skera niður í heilbrigðiskerfinu, og þá er ég ekki bara að tala um Landspítalann, ég er að tala um heilbrigðisstofnanirnar hringinn í kringum landið. Það hefði ekki þurft að skera niður í framhaldsskólunum, ekki í einum einasta framhaldsskóla, og ekki hefði þurft að fara í neinn niðurskurð í velferðarþjónustunni í landinu yfir höfuð, vegna þess að þeir 10 milljarðar kr. sem verið er að skera niður í velferðarþjónustunni er svipuð fjárhæð og ríkisstjórnin afsalaði sér í tekjur með þessum aðgerðum. Þess vegna held ég að það sé býsna augljóst að það var óráðlegt vegna þess að þessar niðurskurðaraðgerðir í velferðarþjónustunni verða auðvitað líka til þess að draga úr vægi samneyslunnar í efnahagsstarfseminni á næsta ári og framlagi hennar til vaxtar og viðgangs í atvinnu- og efnahagslífi okkar.

Við í Samfylkingunni höfum leyft okkur að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið við 2. umr. Þær breytingartillögur eru auðvitað fyrst og fremst táknrænar því að við höfðum ekki um það upplýsingar hvernig fjárlagafrumvarpið mundi líta út fyrr en að við sáum breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar í liðinni viku. Þær eru þess vegna fyrst og fremst táknrænar og snúa að aðalatriðum en ekki hverju og einu því atriði sem við kynnum að vilja breyta í fjárlagafrumvarpinu, en þar er mikilvægur þáttur tekjuöflun. Við gerum þar tillögur um umtalsverða tekjuöflun til þess að geta staðið undir því að bæta kjör meðaltekjufólks og fólks í lágtekjuhópunum og sömuleiðis að styrkja og efla velferðarkerfið í landinu. Hluti af þessum tekjuöflunartillögum snýr að því að þjóðin hafi afgjald af auðlind sinni, eðlilegan arð af fiskinum í sjónum, því að til þess á hún kröfu.

Það sýnir sig að allar hrakspárnar um veiðigjöldin voru á sandi byggðar vegna þess að eftir að veiðigjöldin komu til skilar sjávarútvegurinn eftir sem áður 80 milljörðum í framlegð — 80 milljörðum á ári í framlegð. Við gerum ráð fyrir því í tillögum okkar að af því komi nokkrir milljarðar til viðbótar því sem ríkisstjórnin hefur fyrirhugað til almennings í ríkissjóði þannig að standa megi vörð um velferðina og bæta stöðu þeirra sem lökust hafa kjörin í landinu og þeirra sem hafa meðaltekjur. Það gerum við ekki síst með tillögum sem lúta að nýjum tegundum, þ.e. að makrílnum, að því að hafa tekjur af honum, vegna þess að menn ættu að geta sammælst um það hér í þinginu að þó að það kunni að vera erfitt að vinda ofan af mistökunum sem gerð voru þegar kvótinn var gefinn einkafyrirtækjum, m.a. vegna þess að ýmsir hafa skuldsett sig til kvótakaupa og ráða þess vegna mjög misvel við að greiða auðlindagjöld, þá eigi engin slík sjónarmið við um makrílinn.

Makríllinn er ný tegund í lögsögu okkar, það hefur enginn skuldsett sig til þess að kaupa kvóta í makríl. Auðvitað hafa verið ákveðnar fjárfestingar til þess að afla veiðireynslunnar og vinna þennan fisk, menn hafa haft af því góðar tekjur, en kannski mætti líta til þess við úthlutun að að einhverju leyti mætti úthluta einhverjum hluta heimildanna til þeirra sem ráðist hafa í fjárfestingar í tengslum við veiðar og vinnslu á makríl. En að langstærstum hluta á einfaldlega að vera hægt að bjóða þessar heimildir upp þannig að allir sitji við sama borð. Í því sambandi má auðvitað gera ráðstafanir til þess að tryggja að ákveðin svæði á landinu hafi aðgang að einhverjum hluta heimildanna eða að ákveðnir stærðarflokkar í útgerð hafi aðgang að einhverjum tilteknum hluta heimildanna, en að í meginatriðum ráði markaðurinn því hvað útgerðin borgar fólkinu í landinu fyrir að fá að veiða makrílinn.

Ég á ákaflega erfitt með að skilja að það geti verið nokkur andstaða við það hér í þinginu. Það eru auðvitað rök hvaða varðar aðrar veiðiheimildir, svo sem í þorski, að þar er nokkuð um að menn hafi skuldsett sig til kvótakaupa og ekki er hægt að taka þar auðlindarentu einn, tveir og þrír, heldur verður að innleiða hana hægt og rólega þannig að arðsemi verði áfram í greininni þó að fyrirtæki þar séu skuldsett, en í makrílnum er þetta bara býsna auðvelt. Við eigum þá auðlind saman. Það er affarasælast að frjáls samkeppni og markaðurinn fái einfaldlega að ráða því hvað á að borga fyrir að fá að veiða makríl. Íslenska útgerðin samanstendur af öflugum fyrirtækjum með mjög góða afkomu, þar eru flinkir rekstrarmenn sem eru vel í færum til þess að bjóða í heimildir og veiða þær. Það getur skilað ríkissjóði ákaflega mikilvægum tekjum, milljörðum króna sem geta annaðhvort nýst til þess að auka afganginn af ríkissjóði ef menn vilja það, eða til þess að efla velferðina eða bæta kjör hinna lægst launuðu.

Það er fleiri atriði í tekjuöflunarhluta frumvarpsins sem við í Samfylkingunni erum ekki sammála stjórnarmeirihlutanum um. Það eru þær tekjuskattsbreytingar sem fyrirhugaðar eru í frumvarpinu, sem stjórnarmeirihlutinn kallar í blekkingarskyni lækkunina á millitekjuhópa. En það er engin lækkun á millitekjuhópa heldur er það lækkun á hátekjuhópana, því að þó að skattprósentan í miðþrepinu sé lækkuð um 0,8% í tillögum stjórnarinnar nýtist það lítið eða ekkert þeim sem eru neðarlega eða fyrir miðju í þessu sama miðþrepi, en það nýtist til fulls þeim sem eru í hátekjuþrepinu. Einstaklingur með 350 þús. kr., sem gætu verið býsna nærri meðallaunum í ASÍ, fær þá 0,8% lækkun á þær 100 þús. kr. sem hann er með umfram 250 þús. kr. á mánuði. Það eru þá kannski 800 kr., mundi ég ætla, fyrir þennan venjulega launamann. Þingmaður hins vegar, sem er með einhvers staðar hátt í 700 þús. kr. í þingfararkaup, fær mörg þúsund króna lækkun. Það er algjörlega óeðlilegt að þegar færi gefst í ríkissjóði til að létta byrðum af almenningi vegna þess hversu vel hefur verið haldið á málum síðustu ár sé það hátekjufólkið, við þingmennirnir og fólk á okkar stað í tekjuskalanum, sem eigi að njóta þess til fulls en ekki fólkið sem er með meðaltekjur í landinu og þaðan af lægri.