143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get varla orða bundist út af því sem hér var síðast tilefni skoðanaskipta hjá hv. þm. Helga Hjörvar og hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að af tvennu, þó að mér sé annt um Stofnun Árna Magnússonar og þá byggingu, hef ég um árabil haft enn meiri raun að hinu, að við Íslendingar skulum ekki eiga almennilegt náttúrugripasafn. Það finnst mér eiginlega okkur öllum til skammar sem höfum verið í einhverri forustu í landsmálum um síðustu áratugi eiginlega, það er þyngra en tárum taki.

Ég ætlaði að inna hv. þm. Helga Hjörvar aðeins betur eftir því sem ég heyrði hann segja, en hann tók nokkuð djarflega til orða um að fjárlagafrumvarpið væri gleðiefni og fagnaðarefni fyrir okkur öll. Það má til sanns vegar færa og ég get deilt þeirri skoðun, í ljósi þess að þjóð sem var að kljást við 150–215 milljarða fjárlagahalla getur að sönnu glaðst yfir því að það skuli yfir höfuð vera raunhæft að leggja fram og loka fyrir árið 2014 hallalausum fjárlögum. Það er út af fyrir sig gilt sjónarmið. En það skiptir auðvitað máli hvernig það er gert og mér fannst kannski hv. þingmaður skulda okkur aðeins skýringar á því hvort hann hefur þó ekki eftir sem áður vissar áhyggjur af þeim veikleikum sem augljóslega eru í þeim grunni.

Að hluta til er þessu náð saman með æfingum eins og þeim að færa milli vasa hjá ríkinu, Seðlabanka og ríkissjóði, munar um minna en 10 milljarða þar. Tekjugrunnurinn er auðvitað að veikjast og hv. þingmaður fór vel yfir það í sinni ræðu, en þá hljótum við að beina líka sjónum að ríkisfjármálahorfum til meðallangs tíma. Ég held að hafa verði þann klára fyrirvara á öllum fagnaðarlátum yfir því að við sjáum í hallalaus fjárlög fyrir árið 2014 að ríkisfjármálaáætlun — sem auðvitað er engin áætlun því að ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram fullmótaða ríkisfjármálaáætlun í sérhefti — er sótsvört og (Forseti hringir.) sýnir afkomu ríkissjóðs í járnum næstu fjögur árin. Hversu mikið gleðiefni er það, hv. þingmaður?