143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, menn hafa gjarnan viljað hafa skýr mörk á milli skatta annars vegar og þjónustugjalda hins vegar og það er ljóst af stjórnarskránni að engan skatt má leggja á nema með lögum. Það liggja fyrir úrskurðir frá umboðsmanni og hugsanlega jafnvel dómstólum um það, að ég hygg, að þjónustugjöld mega bara vera til þess að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af því að veita þá tilteknu þjónustu. Hér er verið að leggja til hækkað þjónustugjald eða skráningargjald í háskólann og bersýnilega fer ekki allt af því til að standa undir þjónustunni heldur fer sumt beint í ríkissjóð. Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það verði ekki að túlkast sem skattur.

Svo er annað að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er meira að segja í kaflanum um skráningargjöld allt í einu farið að tala um skólagjöld. Þá veltir maður fyrir sér: Er verið að innleiða skólagjöld með því lögskýringargagni sem nefndarálitið sannarlega er? (Forseti hringir.) Hvaða áhrif hefur það t.d. á Lánasjóð íslenskra námsmanna, (Forseti hringir.) því að skólagjöld eru lánshæf?