143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og tek eindregið undir með þingmanninum hvað varðar Ríkisútvarpið. Þetta er auðvitað engin meðferð á Ríkisútvarpinu, sem ég hélt nú alveg fram á þennan dag að væri ein af kjarnastofnunum þjóðmenningarinnar í landinu þó að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki skilgreint hana þannig og hún sé enn vistuð í menntamálaráðuneytinu. En ég vildi inna hv. þingmann eftir því vegna reynslu hennar sem menntamálaráðherra hvort þetta geti haft frekari afleiðingar fyrir Ríkisútvarpið, því að eitthvað var það á floti í umræðunni í gær að þessi meðferð á Ríkisútvarpinu gæti leitt til þess að tilmæli Eftirlitsstofnunarinnar ESA yrðu ekki uppfyllt og það gæti aftur leitt til þess að hluti af þeim tekjum sem til útvarpsins renna yrði þá skilgreindur sem ólögmæt ríkisaðstoð og Ríkisútvarpið gæti þurft að skila þeim fjármunum.

Er það eitthvað sem ástæða er til að hafa áhyggjur af í þessum fjárlagatillögum, skammsýnu fjárlagatillögum vil ég leyfa mér að segja, hvað varðar Ríkisútvarpið? Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um það hvernig við getum tryggt betur ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og varanlegri rekstrargrunn heldur en við augljóslega gerum þegar ríkisstjórn getur með pólitískum ákvörðunum ákveðið að skera stofnunina niður ef henni líkar ekki við fréttaflutning?