143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er rétt að með þeim lögum sem við samþykktum í vor, þar sem þetta var einn hluti þeirra laga, var verið að koma til móts við ýmsar ábendingar ESA hvað varðar Ríkisútvarpið til að mynda það að tekjuöflun í gegnum auglýsingar eigi að vera í sérstöku dótturfélagi, sem var hluti af lagabálkinum, og önnur tekjuöflun eins og sala á efni og einmitt að gjaldið sé gagnsætt og fyrirsjáanlegt hvað það er sem almenningur greiðir til Ríkisútvarpsins á hverjum tíma. Hvort það sé hluti af athugasemdum ESA að það gjald renni svo óskipt til Ríkisútvarpsins treysti ég mér ekki til að dæma um, en gjaldstofninn þarf að vera gagnsær. Það má alveg spyrja hvort hann sé gagnsær ef við greiðum ákveðna fjárhæð í útvarpsgjald og hún renni svo alls ekki til Ríkisútvarpsins.

Hvað varðar það fyrirkomulag sem ég taldi rétt í ljósi þess sem orðið var, þ.e. í ljósi þess að búið var að leggja af afnotagjaldadeildina og hún hafði vissulega sína galla líka. Ríkisútvarpið var með sína eigin innheimtudeild með ákveðnum fjölda starfsmanna sem annaðist innheimtu afnotagjalda en það voru hins vegar margir fulltrúar almannaþjónustu útvarpa í Evrópu sem vöruðu við því að leggja hana niður því að þar með væri fjárveitingin alltaf með einum eða öðrum hætti komin í hendur ríkisins. Við erum með sláandi dæmi, sambærileg dæmi, og við höfum verið að ganga í gegnum nú frá Finnlandi sem fór sömu leið og við og tóku upp útvarpsgjald fyrir sitt finnska almannaútvarp og það lenti svo í rauninni í pólitískum slag.

Því má auðvitað spyrja sig, þó að lítið þýði kannski að ræða það akkúrat núna í tengslum við þessi fjárlög hvaða leiðir eru færar til að tryggja aukið sjálfstæði Ríkisútvarpsins, hvort það hafi verið mistök á sínum tíma að leggja niður afnotagjaldadeildina.